Kolmunnaveiðarnar við Rockall hafa reynst hagkvæmar. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Að undanaförnu hafa Síldarvinnsluskipin Beitir NK og Börkur NK lagt stund á kolmunnaveiðar suðvestur af Rockall. Veiðarnar hafa gengið vel en heldur hefur þó hægt á þeim síðustu daga. Ef kolmunnaveiðarnar á þessu hafsvæði eru bornar saman við veiðar í færeyskri lögsögu kemur ótvírætt í ljós að þær eru mjög hagkvæmar þrátt fyrir fjarlægð miðanna. Hagkvæmnin felst fyrst og fremst í því að olíueyðsla á hvert veitt tonn er minni á Rockall miðunum en á miðunum við Færeyjar. Við Rockall er fiskurinn í þéttari torfum en í færeysku lögsögunni og stutt dregið til að fá góðan afla. Í reyndinni þarf að gæta þess þar að afli verði ekki of mikill.

Fram kemur í fyrirliggjandi gögnum að olíueyðsla Beitis á hvert veitt tonn í færeyskum sjó í byrjun þessa árs hafi verið um þrefalt meiri en þegar veitt var við Rockall. Hjá Berki var munurinn um það bil tvöfaldur.

Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, segir að hér sé um athyglisverðar tölur að ræða. Hann segir að hafa verði ýmislegt í huga þegar þær séu skoðaðar. Til dæmis hafi veiðin í færeysku lögsögunni ekki verið jafngóð í byrjun þessa árs og var á sama tíma í fyrra. Þá hafi veður einnig haft sín áhrif á veiðarnar í færeyska sjónum. Menn hafi hins vegar verið heppnir með veður við Rockall en þó hafi Beitir lent þar í brælu sem hafði áhrif á veiðar og olíueyðslu í fyrsta túr hans þangað. Eins bendir hann á að burðargeta skipanna skipti höfuðmáli þegar veiðar eins og þessar eru stundaðar á fjarlægum miðum. Það skiptir svo sannarlega máli að hafa skip sem flytja yfir 3.000 tonna farma að landi.