Hákon EA kom með 1.300 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar í morgun. Aflinn fékkst suður og suðaustur af Færeyjum og undir lok veiðiferðarinnar var veitt á gráa svæðinu. Aflinn fékkst í sjö holum og var yfirleitt dregið í 20 – 24 tíma. Heimasíðan ræddi við Jón Þór Björnsson skipstjóra og spurði fyrst hvort menn væru sáttir við aflabrögðin. „Ég veit ekki hvað skal segja. Aflinn var mjög misjafn og það sama gildir um veðrið. Ég reikna með að við séum hættir á kolmunna í bili og vonandi getum við farið að snúa okkur að loðnu. Á landleiðinni urðum við varir við töluvert af loðnu í Rósagarðinum. Við vorum beðnir um að taka sýni en það gekk ekki vegna veðurs. Þarna var haugabræla. Hoffellið var á landleiða á sama tíma og þeir urðu líka varir við loðnu á þessum slóðum en það voru 12 mílur á milli skipanna. Nú er hugsað um loðnu og vonandi kemur eitthvað gott út úr mælingum þegar þetta verður skoðað,“ segir Jón Þór.