Uppsjávarveiðiskip Síldarvinnslunnar, Barði NK, Börkur NK og Beitir NK létu öll úr höfn í Neskaupstað á sunnudag og héldu áleiðis á kolmunnamiðin í færeysku lögsögunni. Það hefur verið óþverraveður á miðunum að undanförnu og höfðu öll skipin verið í landi í eina tíu daga. Heimasíðan ræddi við Grétar Örn Sigfinnson, rekstrarstjóra útgerðar Síldarvinnslunnar, í gær og segir hann að ekkert annað sé að gera en kanna möguleikana í kolmunnanum. „Það ætti að vera unnt að fá kolmunnaafla í færeysku lögsögunni ef veður leyfir. Það er loksins núna komið þokkalegt veður og þá er sjálfsagt að reyna. Einhver skip hafa hafið veiðar suðvestur af Færeyjum og þangað verður haldið. Síðan bíða allir eftir niðurstöðu loðnuleitarinnar sem nú er að hefjast. Líklega verður þó ekkert að frétta af henni fyrr en í lok vikunnar,“ segir Grétar.