Beitir NK með gott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Gert er ráð fyrir að Síldarvinnsluskipin Barði NK, Beitir NK og Börkur NK haldi til kolmunnaveiða eftir páskana. Veiðin mun hefjast syðst í færeysku lögsögunni, á hinu svonefnda gráa svæði. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki, og spurði hann fyrst hvort ríkti bjartsýni um kolmunnaveiðarnar. „Já, ég held að menn séu afar bjartsýnir. Í febrúarmánuði bárust þær fréttir frá Norðmönnum að það hefði verið óvenju mikið af kolmunna að sjá vestur af Írlandi. Veiðin var svo mikil að menn lentu í bölvuðum vandræðum og veiðarfærin slitnuðu jafnvel aftan úr skipunum. Þessi fiskur gengur norður eftir og er yfirleitt kominn á gráa svæðið á milli 10. og 15. apríl. Í fyrra hófum við veiðarnar 11. eða 12. apríl. Mönnum líst semsagt afar vel á kolmunnaveiðarnar framundan,“ segir Hálfdan.