Börkur NK (núverandi Birtingur NK) að síldveiðum við Grundarfjörð. Ljósm. Kristófer Helgason Börkur NK (núverandi Birtingur NK) að síldveiðum við Grundarfjörð. Ljósm. Kristófer Helgason Á árinu 1963 tók stjórn Síldarvinnslunnar ákvörðun um að fyrirtækið skyldi hefja útgerð. Samþykkt var að festa kaup á 264 tonna fiskiskipi sem smíða átti í Austur-Þýskalandi og var gert ráð fyrir að það yrði afhent í nóvember 1964. Fékk skipið nafnið Barði en afhending þess dróst vegna þess að flutningaskip sigldi á það þegar farið var í reynslusiglingu á Elbufljóti og skemmdi mikið. Barði kom því ekki í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað fyrr en 5. mars 1965. Áður en útgerð Barða hófst hafði Síldarvinnslan tekið Gullfaxa á leigu og gert hann út frá áramótum og fram á vor 1964 í þeim tilgangi að afla hráefnis fyrir fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna.
 
Haustið 1964 samþykkti stjórn Síldarvinnslunnar að festa kaup á öðru skipi sem smíðað yrði í Austur-Þýskalandi. Þar var um að ræða systurskip Barða og hlaut það nafnið Bjartur. Bjartur kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað rúmlega tveimur mánuðum eftir að Barði sigldi inn Norðfjörð í fyrsta sinn.
 
Börkur NK að loðnuveiðum 2015. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBörkur NK að loðnuveiðum 2015. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBarði og Bjartur voru smíðaðir sérstaklega með síldveiðar í huga enda var upphaflegur tilgangur með útgerð fyrirtækisins að afla síldarverksmiðju þess hráefnis. Útgerð bátanna gekk vel og á árunum 1966 og 1967 bættust tvö ný síldveiðiskip í flota Síldarvinnslunnar en þau voru smíðuð í Noregi. Þetta voru Börkur og Birtingur.
 
Fyrstu skipin í eigu Síldarvinnslunnar, Bjartur NK og Barði NK, að veiðum norður við Jan Mayen 1967. Ljósm. Kristinn V. Jóhannsson Fyrstu skipin í eigu Síldarvinnslunnar, Bjartur NK og Barði NK, að veiðum norður við Jan Mayen 1967. Ljósm. Kristinn V. Jóhannsson Hér verður útgerðarsaga fyrirtækisins ekki rakin en almennt má segja að rekstur skipa þess hafi gengið vel. Þá hefur Síldarvinnslan alloft fitjað upp á nýjungum á sviði útgerðar og stuðlað að ýmiss konar framförum. Að sjálfsögðu hefur skipastóll fyrirtækisins tekið breytingum og hefur oft þurft að aðlaga hann þeim sviptingum sem átt hafa sér stað á sviði veiða og vinnslu. Nú eru sex skip í flota Síldarvinnslunnar: Uppsjávarskipin Börkur, Beitir og Birtingur, ísfisktogarinn Bjartur og frystitogararnir Barði og Blængur. Þá gerir dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, Gullberg, út ísfisktogarann Gullver og dótturfyrirtæki í Vestmannaeyjum, Bergur-Huginn, gerir út ísfisktogarana Vestmannaey og Bergey. Þá á Síldarvinnslan hlutdeild í uppsjávarskipinu Bjarna Ólafssyni og eins í grænlenska uppsjávarskipinu Polar Amaroq.
 
Frá því að útgerð Síldarvinnslunnar hófst hafa fimm skip borið nafnið Barði, tvö hafa borið nafnið Bjartur, fjögur Börkur, fjögur Birtingur, þrjú Beitir og tvö Blængur. Segja má að flotinn sé sífellt að taka breytingum og í desembermánuði er nýr Beitir væntanlegur í flotann og er það fjórða skipið sem ber það nafn. Þar er um að ræða stærsta uppsjávarskip sem Íslendingar hafa eignast, 4.138 tonn að stærð og er burðargeta þess liðlega 3.200 tonn.
Ísfisktogarinn Bjartur NK hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar frá árinu 1973. Ljósm. Snorri SnorrasonÍsfisktogarinn Bjartur NK hefur verið í flota Síldarvinnslunnar frá árinu 1973. Ljósm. Snorri Snorrason