Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í gærkvöldi en togarinn er hálfnaður í rallinu sem hann tekur nú þátt í. Afli skipsins til þessa er um 12 tonn. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra. „Það er nákvæmlega vika síðan við byrjuðum rallið og nú erum við búnir að toga á 71 stöð af 151 sem okkur er ætlað að toga á. Það er svonefnt norðaustursvæði sem við eigum að gera skil. Við byrjuðum á syðsta hluta svæðisins og vorum komnir norður á Héraðsflóa þegar haldið var í land. Margar þessara stöðva eru á svæðum sem ekki er veitt á. Segja má að þetta hafi gengið vel og veðrið var hagstætt að tveimur síðustu dögunum undanskildum. Skipið fer út á morgun og þá fer Steinþór Hálfdanarson með það. Það er líklega um það bil vika eftir af rallinu en norðurfrá er styttra á milli togstöðva og unnt að taka fleiri hol á dag. Gullver mun ljúka rallinu vestur undir Kolbeinsey,“ segir Þórhallur.