radstefna8

Við undirritun samningsins um Sjávarútvegsskólann. Á myndinni eru (talið frá vinstri): Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri, Guðmundur H. Gunnarsson nýsköpunarstjóri Skinneyjar-Þinganess, Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, Friðrik Már Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, Benedikt Jóhannsson útgerðarstjóri Eskju og Magnús Róbertsson vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði. Ljósm: Jóhann Ólafur Halldórsson

Hinn 15. apríl sl. var undirritaður samningur á milli sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi og Háskólans á Akureyri um að Háskólinn taki að sér að hafa umsjón með starfi Sjávarútvegsskólans. Skólinn er ætlaður nemendum sem nýlokið hafa 9. bekk grunnskóla og er markmið hans að miðla þekkingu í sjávarútvegi til nemenda í sjávarbyggðum og á nærliggjandi svæðum.  Fyrir hönd Háskólans mun Sjávarútvegsmiðstöð hans annast skólahaldið og verður Sigmar Örn Hilmarsson, sjávarútvegsfræðingur, skólastjóri. Auk hans verða tveir starfsmenn ráðnir til að sinna verkefninu. Á þessu ári verður kennt á sex stöðum á Austurlandi en stefnt er að því að kenna víðar á komandi árum. Kennslustaðir á sumri komandi verða Neskaupstaður, Seyðisfjörður, Fáskrúðsfjörður, Eskifjörður, Vopnafjörður og Höfn. Mun kennslan fara fram í náinni samvinnu við sjávarútvegsfyrirtæki á stöðunum.

Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar var stofnaður árið 2013 og var þá einungis kennt í Neskaupstað. Árið 2014 fór kennsla fram í allri Fjarðabyggð og var nafni skólans þá breytt í Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar. Árið 2015 færði skólinn enn út kvíarnar og til samræmis við það var nafni hans breytt í Sjávarútvegsskóli Austurlands. Þess skal getið að Síldarvinnslan hlaut viðurkenninguna menntasproti atvinnulífsins árið 2015 fyrir frumkvæði að stofnun Sjávarútvegsskólans.