Valgarður Freyr Gestsson og Anna Kristín Matthíasdóttir í Neskaupstað hafa stefnt að því að ganga í hjónaband í eitt og hálft ár en covid-faraldurinn hefur gert það að verkum að brúðkaupinu hefur ítrekað verið frestað. Loksins kom að því að dró úr faraldrinum og þá var ákveðið að brúðkaup yrði haldið laugardaginn 7. ágúst. Allt var undirbúið og gert var ráð fyrir að um 70 gestir víðs vegar af landinu kæmu í brúðkaupið. Það voru mikil vonbrigði þegar fjórða bylgja faraldursins reið yfir og allt útlit fyrir að sárafáir kæmu til Neskaupstaðar til að fagna með ungu hjónunum. Ákvörðun var þó tekin um að halda brúðkaupið umræddan dag þó svo að faraldurinn hefði verulega neikvæð áhrif. Fréttir um þessa stöðu bárust til Síldarvinnslunnar og þar var ákveðið að koma til hjálpar. Valgarður segir svo frá: „Starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar hafði samband við mig og spurði hver staðan væri varðandi brúðkaupið. Ég sagði honum að það væru mikil vonbrigði hvernig allt stæði og margir gestanna væru búnir að afboða komu sína. Þá spurði hann hvort við vildum þiggja svonefnt hraðpróf fyrir covid frá fyrirtækinu og prófa alla gesti daginn áður en brúðkaupið færi fram. Það tekur einungis 15 mínútur að framkvæma hvert próf. Ég var vægast sagt undrandi á þessu boði því ég starfa ekki hjá Síldarvinnslunni og það gerir Anna Kristín ekki heldur. Þetta gladdi okkur mjög og sýnir hve gott er að búa í litlu samfélagi þar sem fólk ber umhyggju fyrir náunganum. Við vorum sannast sagna himinlifandi með þetta og létum strax boð út ganga og tilkynntum öllum sem boðið var í veisluna um prófið. Og viðbrögðin létu ekki á sér standa; fólk sem hafði afboðað hóf strax að tilkynna komu sína. Fólk verður prófað síðdegis í dag og við fengum heilbrigðisstarfsmann úr vinahópnum til að annast framkvæmd prófanna. Ég vil koma á framfæri innilegu þakklæti til Síldarvinnslunnar fyrir þennan stórkostlega greiða. Þetta er eitt af því sem við munum aldrei gleyma,“ segir Valgarður.

Brúðguminn fékk að prófa að taka sýni úr einum gestanna og brúðurin fylgdist með. Ljósm.: Matthildur Matthíasdóttir.