Líneik Haraldsdóttir

Í nýútkominni samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar eru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast hér á heimasíðunni og hér er birt viðtal við Líneik Haraldsdóttur sem nýlega lét af störfum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað.

Líneik Haraldsdóttir hóf fyrst störf hjá Síldarvinnslunni árið 1985. Þá starfaði hún í saltfiskskemmunni undir verkstjórn Guðjóns Marteinssonar. Í saltfiskskemmunni vann hún í ein tvö eða þrjú ár en réðst þá til Kaupfélagsins Fram og síðar til fiskvinnslufyrirtækisins Saltfangs. Árið 1991 lá leiðin á ný til Síldarvinnslunnar. Þá hóf hún að starfa í gamla frystihúsinu en fljótlega færði hún sig yfir í saltfiskskemmuna en þá var Heimir Ásgeirsson orðinn verkstjóri þar. Líneik segir svo frá starfstímanum í saltfiskskemmunni. “Það var alltaf talað um saltfiskskemmuna en þar var alls ekki einungis unnin saltfiskur. Verkefnin voru býsna fjölbreytt. Þarna var unnin skreið og einnig söltuð síld undir stjórn Haraldar Jörgensen. Svo var einnig flokkuð loðna í skemmunni um tíma og loðnan var handflokkuð í karl og kerlingu og síðan var hún fryst í gamla frystihúsinu. Það er í reynd ótrúlegt að rifja þetta upp í ljósi þeirrar tækni sem nú er til staðar. Það var misjafnlega mikið að gera í skreiðarskemmunni. Yfir sumartímann fylltist þar allt af fólki og þar unnu krakkar allt niður í 14 ára aldur. Þegar flest var yfir sumartímann unnu vel yfir 100 manns í saltfiskskemmunni og það var svo sannarlega líf og fjör. Þarna fengu allir vinnu og lögð var áhersla á að kenna ungum krökkum að vinna. Vinnuaðstæðurnar í skemmunni voru ekki til að hrópa húrra yfir. Yfir veturinn vorum við til dæmis með fötur með heitu vatni til að hlýja okkur á höndunum. Það breyttist svo sannarlega mikið þegar nýja fiskiðjuverið var tekið í notkun en ég hóf þar strax störf. Tilkoma fiskiðjuversins hafði í för með sér byltingarkenndar framfarir varðandi tækjabúnað, vinnuaðstöðu og starfsmannaaðstöðu. Í fiskiðjuverinu starfaði ég ávallt við gæðaeftirlit. Mér líkaði ávallt vel í vinnunni hjá Síldarvinnslunni og þar átti ég góða og eftirminnilega samstarfsmenn og verkstjóra. Ég ætlaði að láta af störfum um síðustu áramót en vegna heilsubrests þurfti ég að hætta í ágúst síðastliðnum. Mér þótti ekki gott að þurfa að hætta fyrirvaralaust og fyrr en ég ætlaði mér. Vissulega var orðið erfitt fyrir mig að vinna á 12 tíma vöktum átta eða níu mánuði á ári þó svo að hlé væru á milli. Þetta er ekki létt vinna en ég sakna hennar mikið og ég sakna vinnufélaganna. Nú reyni ég að fylgjast með því sem er að gerast hjá fyrirtækinu og fá fréttir af gamla vinnustaðnum. Ég á ljúfar og góðar minningar frá þeim tíma sem ég starfaði hjá Síldarvinnslunni og það er gaman að rifja ýmislegt upp sem gerst hefur.”