Starfmönnum Síldarvinnslunnar verður boðið upp á heilsueflingarnámskeið á næstunni. Ljósm. Ómar BogasonStarfmönnum Síldarvinnslunnar verður boðið upp á heilsueflingarnámskeið á næstunni.
Ljósm. Ómar Bogason
Í vikunni hefjast námskeið um heilsueflingu hjá starfsmönnum Síldarvinnslunnar. Námskeiðin miða að því að hvetja starfsmenn til að huga að heilsunni og gera jákvæðar breytingar á heilsuvenjum sínum. Leiðbeinandi á námskeiðunum verður Hrönn Grímsdóttir, sem er jógakennari með MA gráðu í lýðheilsufræðum og verkefnastjóri hjá Austurbrú. 
 
Að sögn Hákonar Ernusonar, starfsmannastjóra, er tímbært og nauðsynlegt að bjóða starfsmönnum upp á slík námskeið. „Við sáum aukningu í tíðni veikinda hjá starfsmönnum á síðasta ári og það er eitthvað sem við höfum áhyggjur af. Við vitum að margir eru undir álagi, bæði hjá okkur og í samfélaginu almennt. Það hefur verið mikil umræða um þessi mál síðustu misseri, t.d. um kulnun í starfi og áhrif langvarandi álags. Við viljum að sjálfsögðu gera það sem við getum til að minnka álag á okkar fólk og erum með vinnu í gangi sem miðar að því, en við vitum líka að við getum sjálf haft mikið að segja um eigið heilsufar. Þær heilsuvenjur sem við temjum okkur í tengslum við hreyfingu, mataræði og slökun hafa mjög mikil áhrif á almennt heilsufar og líðan. Það er alltaf gott að staldra við annað slagið og skoða hvort maður getur bætt sig á þessum sviðum og námskeiðið er hugsað til að hvetja fólk til að gera einmitt það. Það er ekki alltaf gott að átta sig á því hvaða venjur er best að vinna með og það getur verið flókið fyrir okkur að átta okkur á því hvað virkar best og það er enginn skortur á fólki sem vill selja manni ýmiskonar kúra og skammtímalausnir. Rannsóknir sýna samt að þetta snýst um langtímabreytingar á lífsstíl og venjum og þess vegna fengum við fagmanneskju til að halda þessi námskeið fyrir okkur“, segir Hákon.
 
„Við viljum svo í leiðinni minna á heilsufarsskoðanir sem við bjóðum okkar fólki reglulega upp á, en öllum starfsmönnum verður boðið að mæta í skoðun á þessu ári. Við bjóðum einnig starfsfólki sem er 50 ára og eldra upp á ókeypis ristilspeglun, en slíkar skimanir eru ekki stundaðar með skipulegum hætti þótt um 70 manns látist á ári hverju úr krabbameini í ristli og endaþarmi. Þessar heilsufarsskoðanir og ristilspeglanir hafa þegar bjargað mannslífum hjá okkur og hafa því sannað gildi sitt. Við greiðum einnig 20.000 kr. styrk sem nota má til að greiða fyrir heilsueflingu, með því skilyrði að hún standi í að minnsta kosti þrjá mánuði. Svo viljum við hvetja starfsmenn til að ganga eða hjóla til vinnu og er það nýtt hjá okkur. Á tímabilinu frá 15. apríl og til 15. október geta starfsmen fengið 5000 kr. á mánuði fyrir að ganga eða hjóla til vinnu. Það er auðvitað mislangt í vinnuna fyrir starfsmenn, en fyrir suma gæti slík breyting verið alger bylting í hreyfingu“, segir Hákon.
  
Stefnt er að því að námskeiðið verði í boði fyrir alla starfsmenn, en starfsmenn fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað ríða á vaðið á morgun, fimmtudag. Starfsmenn fiskiðjuversins eru svo næstir í röðinni og sitja námskeið á föstudag. Í kjölfarið verða haldin námskeið á öllum starfsstöðvum og eins fyrir áhafnir skipa.