Í gær var ný ráðgjöf um loðnuveiðar kynnt. Heimilt verður að veiða 127.300 tonn í stað 61 þúsund tonn samkvæmt fyrri ráðgjöf. Þetta þýðir að íslensk skip munu geta veitt tæplega 70 þúsund tonn en erlend skip fá að veiða rúmlega 57 þúsund tonn vegna fyrirliggjandi samninga. Gert er ráð fyrir að þetta þýði útflutningsverðmæti upp á um 18 milljarða króna. Ekki er áformað að Hafrannsóknastofnun mæli loðnu á ný nema sérstakt tilefni verði til þess.
Þessi nýja kvótaúthlun þýðir að skip Síldarvinnslunnar, Beitir, Börkur og Bjarni Ólafsson munu fá að veiða samtals um 12.230 tonn. Auðvitað er því fagnað að loðnuveiðar geti hafist á ný eftir tveggja ára loðnuleysi en óneitanlega veldur það vonbrigðum að ekki skuli heimilaðar meiri veiðar.
Að sögn Gunnþórs B. Ingvasonar, forstjóra Síldarvinnslunnar, verður nú með kaupendum farið yfir hvernig framleiðslunni verður háttað. Ljóst er að svonefnd Japansloðna og loðnuhrogn eru verðmætustu afurðirnar og því má gera ráð fyrir að mest áhersla verði lögð á þá framleiðslu. Það þýðir að veiðar hefjist vart fyrr en hrognafylling í loðnunni verður næg þegar líður á febrúar.