Polar Amaroq.  Ljósm. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir Fyrir nokkru ákváðu grænlensk stjórnvöld að heimila veiðar á 15 þúsund tonnum af makríl í grænlenskri lögsögu á komandi sumri.  Grænlendingar hafa farið þess á leit við íslensk stjórnvöld að fá að landa makrílnum á Íslandi og hefur verið fallist á að þeir fái að landa 12 þúsund tonnum hér á landi.
Í viðtali við Geir Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq og áður skipstjóra á Eriku kom fram fyrir nokkru að vart hefði orðið við makríl í grænlenskri lögsögu í fyrra og hefði Erika m.a. veitt þar 2.500 tonn.  Nú hefur verið ákveðið að Íslendingar muni koma að rannsóknum á útbreiðslu makríls í grænlenskri lögsögu og er fyrirhugað að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson haldi þangað til rannsókna í sumar.
Grænlenska makrílkvótanum verður úthlutað til grænlenskra fyrirtækja en þau geta síðan framselt hann áfram til veiðiskipa.  Því er mögulegt að íslensk skip geti lagt stund á makrílveiðar innan grænlenskrar lögsögu á komandi sumri rétt eins og tveir togarar Brims gerðu um tíma s.l. sumar.