Heimir Ásgeirsson. Ljósm. Smári Geirsson

Heimir Ásgeirsson hefur látið af störfum hjá Síldarvinnslunni vegna aldurs. Hann komst fyrst á launaskrá hjá fyrirtækinu árið 1972 sem sumarstarfsmaður og allt til ársins 1983 starfaði hann hjá því á sumrin að árinu 1980 undanskildu. Árið 1983 réðst hann til Síldarvinnslunnar í fullt starf og lauk hann starfsferlinum hjá fyrirtækinu í lok aprílmánaðar síðastliðins. Í tilefni starfslokanna ákvað heimasíðan að ræða við Heimi um störf hans hjá Síldarvinnslunni.

Byrjaði í gamla frystihúsinu en hóf síðan störf í saltfiskverkuninni

Heimir segir að fyrstu árin sín hjá Síldarvinnslunni séu eftirminnileg en þá var einungis um sumarstarf að ræða. “Ég vann þá í gamla frystihúsinu og starfaði í móttökunni og við landanir úr trillunum. Á þessum árum var smábátaútgerðin í blóma og stundum reru yfir eitt hundrað trillur frá Neskaupstað. Það var lærdómsríkt að kynnast vinnubrögðunum í gamla frystihúsinu, en það hafði lengi verið fjölmennasti vinnustaðurinn í bænum. Þarna vann fólk á öllum aldri og eldra fólk og unglingar voru áberandi. Ótrúlega margir Norðfirðingar stigu sín fyrstu skref í atvinnulífinu í gamla frystihúsinu,” segir Heimir.

Starfsmannafjöldi í saltfiskskemmunni var oft mikill.
Ljósm. Jóhann Gunnar Kristinsson

Árið 1983 réðst Heimir í fullt starf í saltfiskverkun Síldarvinnslunnar sem þá var til húsa í svonefndri saltfiskskemmu. Yfirverkstjóri í saltfiskverkuninni var Guðjón Marteinsson sem er mörgum eftirminnilegur og þá ekki síst Heimi. “Guðjón tók mér afar vel og strax í lok árs 1983 ákvað hann að gera mig að verkstjóra í saltfiskverkuninni. Það var góður skóli að starfa undir yfirstjórn Guðjóns og hann kenndi mér margt, ekki síst allt á sviði mannlegra samskipta. Guðjón lést árið 1989 og þá tók Þorkell Bergsson við starfi yfirverkstjóra. Þorkell gegndi starfinu einungis í stuttan tíma og árið 1991 leysti ég hann af hólmi sem yfirverkstjóri. Saltfiskverkunin var umfangsmikil og um tíma var Síldarvinnslan stærsti saltfiskframleiðandinn á landinu auk þess sem þar var unnið í skreið. Við verkunina starfaði mikill fjöldi fólks og voru starfsmennirnir oft á annað hundrað. Í saltfiskskemmunni vann mikill fjöldi unglinga yfir sumartímann en þar störfuðu líka eldri borgarar sem voru að hverfa af vinnumarkaði. Mér eru margir þessir eldri borgarar afar eftirminnilegir og það var lærdómsríkt að kynnast þeim og eiga við þá góð samskipti,” segir Heimir.

Síldarsöltun í saltfiskskemmunni

Haraldur Jörgensen og Heimir Ásgeirsson standa stoltir við 45.000. tunnuna sem saltað var í á síldarvertíðinni 1996-1997. Alls var saltað í rúmlega 55.000 tunnur á þeirri vertíð.
Ljósm. Elma Guðmundsdóttir

Árið 1986 hófst síldarsöltun í saltfiskskemmunni og var fljótlega mikið umleikis á því sviði. Áður hafði síld verið söltuð um tíma í mjölgeymsluhúsi fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Heimi er síldarsöltunin í skemmunni afar eftirminnileg. “Síldarsöltunin fór heldur hægt af stað en varð fljótlega mjög mikil. Það er alltaf mikið stuð og stemmning í kringum síldina og starfsfólkið í saltfiskemmunni naut þess að starfa við söltun síldarinnar þegar hún barst að landi. Árið 1989 stórjókst síldarsöltunin og þá voru keyptar vélar sem notaðar voru við síldarverkunina. Haraldur Jörgensen var yfirverkstjóri í síldinni og það var afar gott að starfa með honum. Þarna var sett hvert söltunarmetið á fætur öðru. Sérstaklega er vertíðin sem hófst í september 1996 og lauk í janúar 1997 eftirminnileg. Þá var saltað í rúmlega 55.000 tunnur í saltfiskskemmunni og af þessum 55.000 tunnum innihéldu 15.000 flök en í hinum var ýmist heilsöltuð síld eða hausskorin. Þessi vertíð var alger metvertíð og ég held að þetta met hafi aldrei verið slegið,” segir Heimir.

Ameríski rabbíninn að blessa síldina haustið 1999. Með honum er eignkona hans.
Ljósm. Haraldur Jörgensen

Starf Heimis breyttist töluvert á þeim tíma þegar síldarsöltunin stóð yfir. Hann segist meðal annars hafa gegnt hlutverki eins konar “ambassadors” í síldinni, en starfið fólst í því að vera í tengslum við fulltrúa hinna erlendu síldarkaupenda. Heimir segir svo frá: “Margir þessir fulltrúar síldarkaupendanna eru eftirminnilegir en eftirminnilegastir allra voru fulltrúar amerískra gyðinga í New York sem keyptu töluvert af saltaðri síld á þessum árum. Kaupendurnir sendu rabbína til Neskaupstaðar til að fylgjast með söltun á síldinni. Rabbíninn kom hvert haust í nokkur ár og eiginkonan var ávallt með honum. Hann fylgdist með söltuninni hvern dag og var allan daginn á vinnustaðnum. Á þessum tíma var saltað í plasttunnur sem lokað var með gjörð og splitti. Rabbínin blessaði síldina í hverri tunnu og innsiglaði hana síðan sjálfur. Rabbíninn var viðkunnanlegur maður og ágætt að vera í samskiptum við hann. Kaupendur frá Rússlandi og Norðurlöndunum sendu einnig fulltrúa til að fylgjast með söltuninni. Það voru allt saman ágætir menn en þeir voru alls ekki jafn eftirminnilegir og ameríski rabbíninn.”

Árið 1997 tók Síldarvinnslan í notkun nýtt fiskiðjuver sem reist var á hafnarsvæðinu fyrir botni Norðfjarðar. Saltfiskvinnslan var flutt þangað en þar var hún ekki lengi. Ákveðið var að hætta saltfiskverkun á vegum fyrirtækisins árið 1999. Síld var söltuð eitthvað lengur í nýja fiskiðjuverinu en brátt kom að því að síldarsöltun var hætt en þess í stað lögð öll áhersla á að frysta síldina. Hin síðari ár eru einungis saltaðir síldarbitar sem notaðir eru í hina gómsætu jólasíld Síldarvinnslunnar sem margir bíða spenntir eftir á hverju ári.

Yfirverkstjóri í frystigeymslum

Eftir að saltfiskverkun var hætt hjá Síldarvinnslunni tók við nýr kafli í störfum Heimis hjá Síldarvinnslunni. Hann var ráðinn sem yfirverkstjóri í frystigeymslu sem Síldarvinnslan hafði reist og tekin var í notkun árið 2000. Þessi nýja frystigeymsla var stærsta hús sinnar tegundar á Íslandi og var unnt að geyma í henni tæplega10.000 tonn af frystum afurðum. Árið 2006 var síðan tekin í notkun önnur frystigeymsla sem var enn stærri og rúmuðu geymslurnar tvær yfir 20.000 tonn af frystum afurðum. Heimir segir svo frá frystigeymslunum og yfirverkstjórastarfinu í þeim: “Til að byrja með var ég í reynd eini starfsmaðurinn en fljótlega kom í ljós að það dugði engan veginn. Þegar geymslurnar voru orðnar tvær urðum við fimm sem störfuðum í geymslunum og þannig hefur það verið síðan. Þegar upp- og útskipanir eiga sér stað bætast síðan starfsmenn verktakafyrirtækja í starfsmannahópinn. Þegar geymslurnar voru byggðar efuðust margir um skynsemi þeirra fjárfestinga en þær þóttu ævintýralega stórar. Staðreyndin er sú hins vegar að þær sönnuðu fljótt gildi sitt. Í upphafi lönduðu allmörg frystiskip afla sínum í Neskaupstað og síðan fór framleiðsla fiskiðjuversins í geymslurnar. Þróunin var sú að frystiskipunum fækkaði en framleiðsla fiskiðjuversins jókst stig af stigi. Um eða yfir 90% af þeim fiski sem fer um frystigeymslurnar er uppsjávarfiskur, síld, loðna og makríll. Hér áður var frysti fiskurinn fluttur út í flutningaskipum en hin síðari ár hefur flutningur í gámum aukist mjög. Ég saknaði komu flutningaskipanna en sömu skipin komu gjarnan aftur og aftur og maður kynntist skipverjunum. Einkum voru skipstjórarnir góðkunningjar okkar starfsmannanna. Ég man eftir einum sem var rússneskur Úkraínumaður en fyrsta verkefni mitt í hvert sinn sem hann kom var að fara með hann í sundlaugina í Neskaupstað. Honum fannst sundlaugin vera alger dýrðarstaður. Nú hef ég kvatt frystigeymslurnar en þar er allt undir styrkri stjórn. Þarna starfa áfram þeir Jón Grétar Guðgeirsson og Runólfur Axelsson og Sigurjón Jónuson er ekki langt undan. Þetta eru menn sem störfuðu lengi með mér í geymslunum og þekkja þar allt í smáatriðum. Arftaki minn sem yfirverkstjóri er Stefán Einar Elmarsson og ég veit að þarna er allt í góðum höndum.”

Frímerkjasafnið bíður

Heimir Ásgeirsson var yfirverkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar frá árinu 2000. Ljósm. Birgir Ísleifur

Heimir segir að menn spyrji talsvert hvað hann ætli nú að fara að gera þegar hann er hættur að vinna. “Ég segi þeim að gnótt verkefna bíði mín. Nú ætla ég að fara í golfið af meiri krafti en áður. Ég hef unun af gönguferðum og stefnt er að því að ganga sem aldrei fyrr. Þá er stefnan að fara að spila bridds af meiri krafti en ég hef lengi gert. Ég nýt þess að spila og bridds er eina íþróttin sem ég hef náð einhverjum árangri í. Síðast en ekki síst þá bíður frímerkjasafnið eftir því að um það sé betur hugsað en gert hefur verið. Ég hef safnað frímerkjum frá unga aldri og nú ætla ég að njóta þess að dunda mér við safnið og koma á það góðu skipulagi. Það verður afskaplega ánægjulegt,” segir Heimir Ásgeirsson að lokum.