Fyrr í þessum mánuði héldu tveir kennarar Verkmanntaskóla Austurlands til Gdynia í Póllandi í þeim tilgangi að kynna sér það nýjasta í kennslu í vélstjórn með vélarúmshermum. Þetta voru þeir Jón Valgeir Jónsson og Hafliði Hinriksson. Fréttir af för þeirra bárust til Síldarvinnslunnar og kom fyrirtækið því til leiðar að tvímenningunum var boðið að heimsækja skipasmíðastöð Karstensens í Póllandi en þar er einmitt unnið að smíði tveggja skipa fyrir íslensk fyrirtæki; Vilhelms Þorsteinssonar fyrir Samherja og Barkar fyrir Síldarvinnsluna. Karstensen er danskt fyrirtæki en hluti af starfsemi þess fer fram í Gdynia í Póllandi.
Jón Valgeir segir að heimsóknin í skipasmíðastöðina hafi verið einkar fróðleg og ánægjuleg. „Þarna tók á móti okkur verkstjóri sem leiddi okkur um og fræddi. Í Póllandi er efnað niður í skipin og skrokkarnir settir saman. Síðan eru skrokkarnir dregnir til Danmerkur þar sem lokið er við smíðina. Þetta er gríðarlega stórt í sniðum í Gdynia og þarna starfa fjöldi manns. Þegar við komum þarna var byrjað að setja saman einingar í nýjan Vilhelm Þorsteinsson og þarna var unnið við að sjóða saman, sandblása og grunna. Þá kom fram að byrjað er að skera niður í nýjan Börk. Auk þess var þarna unnið að smíði fleiri skipa. Það var mjög fróðlegt að sjá hvernig að þessu er staðið og kynnast þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð. Við Hafliði erum afar þakklátir fyrir móttökurnar sem við fengum hjá starfsmönnum Karstensens í Póllandi,“ segir Jón Valgeir.