Vinnsla er stöðug í frystihúsinu á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla er stöðug í frystihúsinu á Seyðisfirði.
Ljósm. Ómar Bogason
Í lok síðustu viku komu flestir togarar á Austfjarðamiðum til hafnar vegna brælu. Þegar veiði hófst á ný reyndist hún vera heldur döpur. Gullver NS kom til hafnar á Seyðisfirði í morgun og var afli hans 83 tonn. Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri segir að þorskveiði hafi hvergi gengið vel síðustu dagana. „Þetta virðist vera svona allt í kringum landið og það eru óþægileg viðbrigði því afli hefur verið mjög góður að undanförnu hér fyrir austan og við fórum marga fullfermistúra sem tóku einungis 3-4 daga. Við vorum núna að veiða á Tangaflakinu, í Reyðarfjarðardýpinu og út af Gerpisflaki og það er alls staðar sama sagan – heldur lítið að hafa. Þetta er sláandi, en hlýtur að lagast,“ segir Rúnar.
 
Kapp hefur verið lagt á að frystihúsið á Seyðisfirði hafi nægt hráefni þó svo afli hafi minnkað. Þessa vikuna hefur þar verið unninn afli úr Gullver, Smáey VE, Vestmannaey VE og Björgu EA.  Að jafnaði eru unnar ferskar afurðir í húsinu fjóra daga vikunnar en fimmta daginn eru afurðirnar frystar. Fersku afurðirnar eru fluttar út með Norrænu, Mykinesi eða með Eimskip frá Reyðarfirði. Árdís Sigurðardóttir, vinnslustjóri í frystihúsinu, segir að það skipti miklu máli að nægur fiskur fáist til vinnslu „Hér er nóg vinna alla daga og það skiptir mestu máli. Fiskurinn kemur úr ýmsum skipum auk Gullvers. Það er ekki óalgengt að afli minnki í október eða nóvember og þá skiptir svo miklu máli að fá fisk frá fleiri skipum. Afli hefur verið óvenju góður hér fyrir austan að undanförnu og því er breytingin býsna mikil þegar hann verður tregari,“ segir Árdís.