Í gærkvöldi kom Beitir NK til Neskaupstaðar með 2.800 tonn af kolmunna og Hákon EA kom til Seyðisfjarðar með rúmlega 1.600 tonn. Nokkurra daga vinnsluhlé hafði verið hjá verksmiðjunum á báðum stöðum vegna skorts á hráefni. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að nú sé farið að hægja heldur á veiðinni í færeysku lögsögunni. „Það er þó þannig að stundum reka menn í góð hol. Kolmunninn dreifir sér þegar hann kemur upp í kantana suður af Færeyjum og austan og vestan við eyjarnar og þá fer að hægjast á veiði,“ segir Tómas.
Beitir mun halda á ný til kolmunnaveiða að löndun lokinni.
Börkur NK er á landleið með 2.250 tonn af kolmunna og einnig Bjarni Ólafsson AK með 1.750 tonn. Börkur mun væntanlega landa á Seyðisfirði en Bjarni Ólafsson í Neskaupstað.