Margrét EA að landa kolmunna í Neskaupstað sl. miðvikudag.
Ljósm. Smári Geirsson

Það hefur heldur hægst á kolmunnaveiðinni í færeysku lögsögunni síðustu dagana en þó eru skipin að fá mjög góð hol inn á milli. Beitir NK er á landleið með 3.050 tonn og verður á Seyðisfirði í kvöld. Hákon EA er einnig á landleið með 1.650 tonn og verður hann í Neskaupstað á morgun.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa haft nóg hráefni til vinnslu frá því að kolmunnaveiðin hófst eftir páska. Verksmiðjan á Seyðifirði kláraði þó hráefnið sl. nótt og verið er að þrífa verksmiðjuna áður en löndun hefst úr Beiti og vinnsla hefst á ný. Kolmunninn er horaður á þessum árstíma og því fæst lítið lýsi úr honum en mjölið er hins vegar í háum gæðum.