Ísfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði sl. mánudag. Aflinn var 63 tonn, mest þorskur. Skipið hélt aftur til veiða í gær. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra í morgun en þá var Gullver að leita að karfa og ufsa í Berufjarðarálnum. „Það hefur verið heldur lítið fiskirí hér eystra að undanförnu og svo hefur veðrið truflað að auki. Í síðasta túr vorum við mest á Fætinum og í Hvalbakshallinu og það var leiðindaveður allan túrinn. Nú er hins vegar í lagi með veðrið. Við þurftum að fara inn á Norðfjörð og skila þar í land Norðfirðingunum í áhöfninni í lok túrsins og sækja þá síðan í gær þegar farið var út. Fjarðarheiðin var ófær og þeir komust ekki landleiðina. Ráðgert er að við komum inn á sunnudag, en við erum einir að fiska hérna fyrir austan eins og stendur og það er erfitt fyrir eitt skip að finna hvar fiskurinn heldur sig,“ segir Rúnar.