Að undanförnu hefur veiðin á íslenskri sumargotssíld vestur af landinu verið heldur róleg. Skipstjórar skipanna segja að það vanti allan kraft í veiðina. Beitir NK kom til Neskaupstaðar sl. laugardag með 700 tonn og í kjölfar hans kom Vilhelm Þorsteinsson EA með 1.300 tonn þannig að vinnsla er í fullum gangi í fiskiðjuverinu eftir nokkurt hlé. Barði NK er síðan á leiðinni austur með rúm 900 tonn og er hann væntanlegur til hafnar á morgun.
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að síldveiðin mætti ganga betur. „Veiðin hjá okkur var með rólegasta móti en annars stoppuðum við ekki lengi á miðunum. Það voru fínustu lóðningar en holin skiluðu hins vegar heldur litlu. Síldin er á mikilli hreyfingu þarna og það er allavega hluti af skýringunni á því að oft fæst minna en gera má ráð fyrir“, segir Tómas.
Beitir mun láta úr höfn í kvöld og það er annað hvort síld eða loðna á dagskránni hjá Beitismönnum.