Börkur NK er að landa fullfermi af kolmunna í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK er að landa fullfermi af kolmunna í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonKolmunnaveiði íslensku skipanna hefur gengið heldur rólega að undanförnu. Bjarni Ólafsson AK landaði  1.800 tonnum í Neskaupstað um helgina og nú er Börkur NK að landa þar 2.200 tonnum. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki segir að veiðiferðin hafi tekið átta daga höfn í höfn. „Aflinn fékkst í sjö löngum holum. Við drógum yfirleitt í eina 18 tíma og aflinn var yfirleitt 300-400 tonn í holi. Sannleikurinn er sá að það er afskaplega rólegt yfir þessu. Við byrjuðum túrinn austarlega á gráa svæðinu en  enduðum uppi á Munkagrunni í færeysku lögsögunni. Fiskurinn gengur austarlega og það er okkur óhagstætt því þá er hætta á að hann gangi inn í norska lögsögu en ekki í færeyskan sjó eins og verið hefur. Þetta er þó enn töluvert óljóst og margt getur breyst í þessum efnum á skömmum tíma. Það er enn ágæt veiði sunnan línunnar í skosku lögsögunni og þar eru hollensk skip til dæmis að gera það gott, en fiskurinn þar virðist ganga afar hægt norður eftir. Staðreyndin er sú að við höfum ekki séð eins mikið af fiski og síðustu ár og það mætti vera meiri kraftur í veiðunum. En það verður vonandi hægt að juða á þessu áfram eða allt fram undir makrílvertíð,“ segir Hjörvar.