Eyrún Guðmundsdóttir. Ljósm. Ómar Bogason

Í nýútkominni samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar eru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast hér á heimasíðunni og hið fyrsta er við Eyrúnu Guðmundsdóttur starfsmann á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar á Seyðisfirði.

Eyrún Guðmundsdóttir er Raufarhafnarbúi og hefur starfað á rannsóknastofum fiskimjölsverksmiðja í um 30 ár. Eyrún starfar nú á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Hún segist hafa hafið störf á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðju SR á Raufarhöfn 26. janúar árið 1996. „Ég var búin að vinna í frystihúsinu á Raufarhöfn í ein 20 ár og mér fannst vera kominn tími til að skipta um vinnustað. Ég sá rannsóknastofustarfið auglýst, sótti um og fékk það. Ég starfaði þarna á rannsóknastofunni þar til verksmiðjan á Raufarhöfn hætti starfsemi árið 2006. Þegar hætt var að vinna mjöl og lýsi á Raufarhöfn hóf ég að starfa á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar í Helguvík og þar var ég í hátt í 20 ár eða þar til verksmiðjunni var lokað árið 2019. Seinni árin sem ég starfaði í Helguvík fór ég alloft til starfa í fiskimjölsverksmiðjunni á Seyðisfirði og að því kom að ég tók við rannsóknastofunni þar. Um tíma vann ég að rannsóknastörfum bæði í Helguvík og á Seyðisfirði en það var unnt vegna þess að verksmiðjurnar voru gjarnan ekki að vinna á sama tíma. Starfið á rannsóknastofunni er bæði fjölbreytt og skemmtilegt en þar fara fram margvíslegar mælingar á bæði mjöli og lýsi. Þetta er í reynd starf sem ég elska og ég myndi örugglega ekki sinna því nema vegna þess hve áhugavert það er. Mér til ánægju hef ég tímabundið starfað á rannsóknastofum í fleiri verksmiðjum. Ég hef til dæmis leyst af á Hornafirði og á Norðfirði og það er alltaf gaman að kynnast nýjum stöðum. Þótt ég hafi hætt að starfa á Raufarhöfn árið 2006 hef ég haldið tryggð við staðinn. Á Raufarhöfn er rólegt og gott að búa og þar er virkilega afslappandi umhverfi. Starfið í fiskimjölsverksmiðjunum er vertíðabundið þannig að mér gefst alltaf góður tími til að dvelja heima á milli vertíða. Ég kann afskaplega vel við að hafa þetta svona. Þetta á virkilega vel við mig.“