Samfelld vinnsla á síld hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað að undanförnu. Lokið var við að landa 1250 tonnum af íslenskri sumargotssíld úr Berki NK á sunnudagsmorgun en aflann fékk hann vestur af landinu. Nú er verið að vinna úr Vilhelm Þorsteinssyni EA sem kom með 1500 tonn sem einnig fengust fyrir vestan. Beitir NK kom til hafnar í Neskaupstað í gær með 910 tonn af síld sem fékkst austur af landinu og verður væntanlega byrjað að vinna aflann úr honum á morgun. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra á Beiti og spurði fyrst hvort mikið hefði verið að sjá af síld austurfrá. „Já, þarna var hellingur af síld. Við vorum að veiðum utan við Glettinganestotuna og djúpt í Seyðisfjarðardýpinu og tókum þarna fjögur stutt hol. Það var einungis togað í einn og hálfan tíma í hverju holi. Síldin sem þarna fékkst er blanda af norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Íslenska sumargotssíldin er um 30 – 40% af aflanum. Færeyingar hafa verið að veiðum á þessum slóðum en þeir hafa þó verið töluvert utar,“ segir Sturla.