Landað úr Vestmannaey VE síðdegis í gær. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Bergur VE kom til Vestmannaeyja í gærmorgun með fullfermi. Löndun hófst strax úr skipinu og náði heimasíðan tali af Ragnari Waage Pálmasyni skipstjóra. „Þetta er mest ýsa og lýsa sem við erum með. Lýsan fékkst í Skeiðarárdýpinu en annar afli á Ingólfshöfða og í Breiðamerkurdýpi. Það er ekki hægt að kvarta undan neinu – aflinn var góður og veðrið var hreint út sagt dásamlegt allan túrinn. Það er allt svo mikið léttara þegar tíðin er svona einstök og þá liggur líka svo vel á mönnum,“ segir Ragnar.

Vestmannaey VE kom síðan til Eyja sídegis í gær og var einnig með fullfermi. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri talar um veðrið rétt eins og Ragnar og dásamar það. „Það var stafalogn allan túrinn, alveg himnesk blíða. Við byrjuðum á að leita að ufsa og drógum grunnin austur. Eins og venjulega skilaði ufasaleitin sorglega litlum árangri. Við enduðum síðan í Breiðamerkurdýpinu. Aflinn var mest ýsa. Það er ekki hægt að kvarta undan aflabrögðum en við vorum rétt rúma fjóra sólarhringa í túrnum,“ segir Birgir.

Bergur og Vestmannaey halda til veiða á ný í fyrramálið.