Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á árinu, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga þess. Nokkur þessara viðtala munu birtast hér á heimasíðunni og hér er eitt þeirra.
Sigurður Karl Jóhannsson hóf störf hjá Síldarvinnslunni 12 ára gamall. Þegar hann var 14 ára hófst sjómannsferillinn og í sumar hefur hann verið á Síldarvinnsluskipum í 53 ár. Sigurður segir svo frá sjómannsferlinum. „Ég byrjaði sem hálfdrættingur á skuttogaranum Barða sumarið 1971. Barði var fyrsti skuttogari landsmanna og gekk erfiðlega að manna hann. Þess vegna fengum við strákarnir pláss. Menn höfðu takmarkaða trú á skuttogurum í upphafi en það átti sem betur fer eftir að breytast. Árið 1973 fór ég síðan yfir á Bjart en hann var spánnýr Japanstogari og allt þar um borð þótti ákaflega fínt. Á Bjarti var ég allt til ársins 1988. Fyrstu fjögur árin mín á sjó var ég alltaf sjóveikur. Ég var meira að segja sjóveikur í blíðu og ældi eins og múkki. Þetta skyggði mjög á upphaf sjómannsferilsins en að því kom að þetta lagaðist og síðan hef ég aldrei fundið fyrir sjóveikinni. Af Bjarti lá leiðin á Börk, sem gjarnan var nefndur Stóri-Börkur. Á Berki var ég til ársins 2010 en þá var skipt yfir á Beiti og þaðan yfir á Börk, sem er sama skip og nú heitir Barði, árið 2014. Nú er ég síðan á Berki sem kom nýr til landsins árið 2021 og er stórglæsilegt skip í alla staði. Ég er stundum að velta fyrir mér þeim breytingum sem orðið hafa á aðbúnaði og vinnuaðstöðu um borð í fiskiskipum á þeirri rúmlega hálfu öld sem ég hef verið á sjónum. Breytingarnar eru stórkostlegar og sjómannsstarfið í reynd orðið allt annað en var. Það fer vel um alla um borð og öll vinnuaðstaða er svo miklu betri en áður var. Ég hef aldrei notið þess eins mikið að vera á sjó og einmitt núna síðustu árin. Þegar við erum með fullfermi á núverandi Berki er skipið ekki alltof hlaðið en til dæmis á Stóra-Berki í gamla daga var allt á svarta kafi þegar komið var í hann og menn að vinna hundblautir við erfiðar aðstæður. Þá ber að hafa í huga að í nýjum skipum er allt lagt upp úr því að koma með gott hráefni að landi. Aflinn er kældur um borð og stærð skipanna gerir það einnig að verkum að þau fara miklu betur með aflann en eldri skipin gerðu. Nýju skipin bjóða upp á betri og öruggari vinnuaðstæður, þægindi um borð og verðmætari afla. Framfarirnar eru ótvíræðar. Síðan ber að nefna að á uppsjávarveiðiskipum Síldarvinnslunnar eru tvöfaldar áhafnir þannig að sjómenn á þeim fá möguleika á að njóta fjölskyldulífs í miklu ríkari mæli en áður þekktist. Þegar allt þetta er skoðað sjá allir að sjómannsstarfið er miklu eftirsóknarverðara nú en áður.“