Kolmunnaskipin sem landa hjá Síldarvinnslunni hafa nú gert hlé á veiðum. Á myndinni eru Polar Amaroq og Beitir NK á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason.Kolmunnaskipin sem landa hjá Síldarvinnslunni hafa nú gert hlé á veiðum. Á myndinni eru Polar Amaroq og Beitir NK á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason.Kolmunnaveiðar íslenskra skipa hófust að lokinni loðnuvertíð. Veiðisvæðið var vestur af Írlandi í um það bil 650 mílna fjarlægð frá austfirskum höfnum. Í fyrstu gengu veiðarnar sæmilega og landaði Vilhelm Þorsteinsson EA 1.760 tonnum í Neskaupstað sl. þriðjudag. Seinni hluta síðustu viku dró mikið úr veiðinni og var kolmunninn þá að ganga inn í írska lögsögu þar sem íslensku skipin hafa ekki heimild til veiða. Skipin sem landa afla sínum hjá Síldarvinnslunni hættu veiðum undir lok vikunnar og komu til löndunar um nýliðna helgi. Börkur NK landaði 1.830 tonnum í Neskaupstað og Margrét EA er að landa þar 800 tonnum. Beitir NK landaði 1.320 tonnum á Seyðisfirði og þar er nú verið að landa 1.250 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK.

Hjá þessum skipum verður nú gert hlé á kolmunnaveiðum og þess beðið að fiskurinn gangi inn í færeyska lögsögu. Það gæti gerst snemma í aprílmánuði ef miðað er við reynslu fyrri ára.