Nú eru öll kolmunnaskipin sem landa hjá Síldarvinnslunni komin til hafnar af miðunum vestur af Írlandi. Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar á föstudag með 1.200 tonn og Börkur NK kom þangað á sunnudag með 2.200 tonn. Loks kom Beitir NK á mánudag með 1.750 tonn. Nú verður gert hlé á veiðunum fram undir páska en þá munu veiðar væntanlega hefjast á ný á gráa svæðinu suður af Færeyjum.
Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, segir að vinnsla á kolmunnanum hafi gengið afar vel. Úr honum fæst gott mjöl og eitthvað lýsi, en lýsið í fiskinum hefur farið minnkandi enda er hann að horast mjög um þessar mundir.