Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gær eftir að hafa lokið tveimur þriðju af yfirstandandi ralli. Afli skipsins var 27 tonn. Gullver tekur nú þátt í togararallinu í fjórða sinn en önnur skip sem taka þátt í verkefninu eru togarinn Breki og hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði hvernig hefði gengið til þessa. „Það hefur gengið einstaklega vel enda hefur verið blíða allan tímann sem er óvenjulegt á þessum árstíma. Við á Gullver erum búnir að taka 98 hol af þeim 151 sem okkur er ætlað að taka. Okkar verkefni er að sinna hinu svonefnda norðaustursvæði. Við byrjuðum á Glettingi og héldum síðan norður eftir allt vestur fyrir Skjálfanda. Síðan var haldið austur um á ný og endað á Glettingi, á sama stað og við byrjuðum. Í seinni hluta rallsins mun Gullver fara suður á Breiðdalsgrunn og síðan á Þórsbanka og Verkamannabanka alveg að færeysku lögsögunni og austur að Kremlarmúr. Aflinn sem við erum með er ekki mikill og er það í reynd samkvæmt venju. Við höfum ekki orðið varir við neina loðnu og er það óvenjulegt. Nú fer ég í land og Hjálmar Ólafur Bjarnason leysir mig af. Það má gera ráð fyrir að seinni hluti rallsins hjá Gullver taki eina fjóra eða fimm daga, en í fyrri hlutanum vorum við að jafnaði að taka 12 hol á dag,“ segir Steinþór.