Úr fiskiðjuverinu í sumar í síldar- og makrílvinnslu.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirUm helgina var hörku makrílveiði austur af landinu. Beitir NK er að landa um 500 tonnum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar  í Neskaupstað og Börkur NK kom til hafnar í morgun með álíka afla. Á undan þeim hafði Bjarni Ólafsson AK landað tæplega 600 tonnum til vinnslu, en meirihluti þess afla var síld.

Makríllinn sem skipin koma með að landi er mjög góður, sterkari og átuminni en áður og vel gengur að vinna hann.

Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti segir að í reynd hafi verið afar góð makrílveiði síðustu daga úti fyrir Austfjörðum. Þó sé veiðin misjöfn eftir því hvenær sólarhringsins togað er; það er minna að fá yfir daginn en góður afli í myrkrinu. Í síðustu veiðiferð tók Beitir þrjú hol og voru þau býsna misjöfn eftir því hvenær togað var. Í fyrsta holi fengust 150 tonn, 30 tonn í öðru og rúm 300 í því þriðja. Um var að ræða nánast hreinan makríl en síldarbátarnir eru einnig að fá góðan afla bæði austar og uppi á grunnum. Til dæmis hefur góður síldarafli fengist bæði í Reyðarfjarðar- og Norðfjarðardýpi.