Gullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS heldur til veiða. Ljósm. Ómar BogasonAfli Gullvers NS í októbermánuði var góður. Skipið kom með 524 tonn að landi í mánuðinum, þar af var 284 tonn þorskur og 115 tonn karfi. Drjúgur hluti aflans fór til vinnslu hjá frystihúsi Gullbergs á Seyðisfirði og þar hefur verið nægt hráefni.
 
Um þessar mundir lætur Rúnar Gunnarsson af störfum sem skipstjóri á Gullver en hann hefur fengið ársleyfi og mun taka við störfum hafnarvarðar á Seyðisfirði. Í stað Rúnars mun Þórhallur Jónsson gegna starfi skipstjóra ásamt Jónasi P. Jónssyni. Þórhallur hefur verið 1. stýrimaður á skipinu undanfarin ár.
 
Það eru ákveðin tímamót fólgin í því að Rúnar skuli láta af störfum eftir farsælan feril á skipinu. Þeir Rúnar og Jónas hafa verið á Gullver frá því að skipið kom nýtt til Seyðisfjarðar í júlímánuði 1983, fyrst sem stýrimenn og síðan sem skipstjórar. Nú er það bara spurningin hvort Rúnar snúi aftur á sjóinn að loknu ársleyfinu eða hvort hann festir rætur í hafnarvarðarstarfinu.
 
Að sögn Jónasar P. Jónssonar eru þeir Rúnar ekki þeir einu sem hafa verið í áhöfn Gullvers frá því að skipið hóf veiðar. Magnús Stefánsson bátsmaður hefur einnig fylgt Gullver frá fyrstu tíð.
 
 Jónas P. Jónsson skipstjóri er ánægður með aflabrögðin í októbermánuði. „Það er búin að vera góð veiði á okkar hefðbundnu miðum. Við erum venjulega fjóra daga í viku á sjó en liggjum í landi í tvo til þrjá daga. Það er því ljóst að unnt væri að fiska enn meira á skipið. Hver veiðiferð hjá okkur er annarri lík. Við byrjum á því að veiða karfa í Berufjarðarál og Lónsdýpi en síðan er farið í þorsk og ufsa í Hvalbakshallinu eða norður á Fæti. Reyndar fórum við alla leið á Tangaflakið í síðasta túr. Í lok hvers túrs nú í haust hefur venjulega verið lögð áhersla á að ná í 10-15 tonn af ýsu. Almennt má segja að þetta fyrirkomulag hafi gengið vel,“ sagði Jónas.