Beitir NK er á landleið með 1245 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst um 65 mílur vestsuðvestur af Öndverðarnesi. Hann er væntanlegur til löndunar í Neskaupstað í fyrramálið, en siglt er norður fyrir land vegna slæms veðurútlits suður af landinu. Haft var samband við Tómas Kárason skipstjóra um tíuleytið í morgun þegar skipið var komið rétt austur fyrir Hornbjarg. Tómas lét vel af veiðiferðinni og sagði að mikið hefði verið að sjá á veiðislóðinni þó torfurnar hefðu gefið misjafnlega mikið. „Túrinn gekk afar vel í alla staði og við fengum góð hol“, sagði Tómas. Aflinn fékkst í fjórum holum og tvö þeirra voru afar góð. Eitt holið gaf 550 tonn eftir að togað hafði verið í klukkutíma og annað um 300 tonn eftir að togað hafði verið í tvo tíma. Að auki fengum við 220 tonn gefins hjá Vilhelm Þorsteinssyni EA. Við toguðum í gegnum sömu torfuna og Vilhelm en þeir fengu heldur meiri afla en æskilegt var fyrir vinnsluna um borð þrátt fyrir stutt hol og nutum við góðs af því. Allt gengur þetta út á að vinna síldina sem ferskasta og mikilvægt er að hún bíði ekki lengi áður en hún er unnin“.
Nú líður að lokum veiðanna á íslensku síldinni hjá Síldarvinnsluskipunum en vertíðin hefur gengið afar vel. Börkur NK er á miðunum og var kominn með 800 tonn þegar haft var samband við skipið í morgun.