Prinsinn, Bjartur NK kominn til hafnar eftir hörkutúr. Ljósm: Sigurður Steinn EinarssonÍsfisktogarinn Bjartur kom til löndunar í Neskaupstað í morgun með 97 tonna afla. Uppistaða aflans er þorskur eða 85 tonn. Þetta er fyrsti botnfisktúr Bjarts að afloknum makrílveiðum en skipið fór í fjóra makríltúra á tímabilinu 7.-17. ágúst og veiddi rúmlega 180 tonn sem fóru til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Jóhann Örn Jóhannsson skipstjóri var ánægður með túrinn og að vera byrjaður aftur á botnfiskveiðum: „Við erum afar sáttir við að vera komnir á hefðbundnar botnfiskveiðar á ný, þar eigum við heima og þar kunnum við best við okkur. Þessi túr gekk afar vel. Við vorum einungis tvo sólarhringa á veiðum og fengum 48 tonn fyrri daginn og 49 þann síðari. Þá er fiskurinn afar vænn og góður. Við veiddum mest í Vonarbrekkunni austan við Litladýpi en það er suðaustur af Breiðdalsgrunni, innan við Utanfót,“ sagði Jóhann í samtali við heimasíðuna.

                Líklegt er að Bjartur haldi á ný til veiða á sunnudag.