Víglundur Gunnarsson fæddist á Stekk í Mjóafirði árið 1947. Hann fluttist til Neskaupstaðar ásamt foreldrum sínum og systkinum árið 1955 og þá settist fjölskyldan að í húsinu Hruna sem stóð innarlega í bænum við Naustahvamm. Árið 1958 var síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar reist og var þá mikið umleikis í nágrenni Hruna en síldarverksmiðjan var í reynd byggð handan götunnar. Byggingarframkvæmdirnar settu sitt mark á umhverfið og voru miklir malarhaugar utan við svefnherbergisgluggann. Víglundur fylgdist spenntur með byggingarframkvæmdunum og þegar vinnsla hófst í verksmiðjunni réði hann sig þar til starfa. Hér á eftir fer frásögn Víglundar af byggingarframkvæmdunum og fyrstu starfsárum verksmiðjunnar en þá sinnti hann þar ýmsum störfum:
Bygging verksmiðjunnar er mér afar minnisstæð. Það var mikið um að vera hvern einasta dag og þarna unnu fullt af skemmtilegum körlum, bæði heimamenn og aðkomumenn. Ég var að snúast í kringum þessa menn og aldrei var amast við mér, menn virtust þvert á móti hafa gaman af því hve þessi strákur sýndi framkvæmdunum mikinn áhuga.
Í rauninni var það ótrúlegt hve byggingarframkvæmdirnar gengu vel miðað við þann búnað sem var til staðar. Ýmislegt var erfiðara en annað. Ég man til dæmis vel eftir því þegar Helgi Helgason VE kom með gufuketil verksmiðjunnar í togi að sunnan og þá átti eftir að koma honum á sinn stað. Þarna voru engir kranar til staðar og því þurfti að velta katlinum upp úr fjörunni og upp á veg. Síðan var honum velt eftir veginum og á sinn stað á verksmiðjugrunninum. Að því loknu var síðan steypt í kringum hann. Þetta var framkvæmt með miklum tilfæringum og notuð tóg og blakkir til að þoka katlinum úr stað. Þetta gekk allt saman en það mátti ekki mikið út af bera til þess að allt færi í óefni.
Það vann mikill fjöldi manna við byggingu verksmiðjunnar. Grunnur hennar og hráefnisþrær voru steinsteyptar og öll steypan var hrærð í gamaldags steypuvél og steypunni síðan keyrt í mótin í hjólbörum. Verktakafyrirtækið Snæfell frá Eskifirði sá um byggingu hráefnisþrónna og voru margir menn sem störfuðu á þess vegum undir stjórn Bóasar Emilssonar. Bóas var aðsópsmikill og hann átti það til að glíma við strákana sem unnu hjá honum. Á sama tíma var Snæfell að leggja rafmagnslínur frá Grímsárvirkjun þannig að það var mikið að gera hjá þeim Snæfellsmönnum. Strákarnir frá Héðni eru líka eftirminnilegir, en þeir sáu um að koma upp vélbúnaði verksmiðjunnar. Þarna voru strákar eins og Jói, Bingó og Fíi og reyndar miklu fleiri og flestir voru þeir ungir og sprellfjörugir. Síðar komu Héðinsmenn sem áttu eftir að stýra verksmiðjunni en það voru Hilmar Haraldsson og Kristinn Sigurðsson.
Við fjölskyldan fórum í stutt ferðalag og þegar við komum til baka var farið að rjúka úr verksmiðjunni. Þetta var í júlímánuði 1958. Það er mér ógleymanlegt að sjá verksmiðjuna í gangi í fyrsta sinn. Þegar heim var komið gekk ég strax á fund Guðjóns Marteinssonar verkstjóra og bað hann um vinnu. Ég var einungis 11 ára gamall en það sárvantaði starfsmenn þannig að ég fékk vinnuna. Fyrsta árið starfaði ég sem smokrari en starfið fólst í því að smokra mjölpokunum upp á rör sem mjölið streymdi síðan úr í þá. Mjölpallurinn var á þessum tíma í bogaskemmunni svonefndu sem stóð nokkuð innan við verksmiðjuhúsið. Rör sem flutti mjölið lá frá verksmiðjunni í skemmuna.
Mjölpokarnir á þessu fyrsta ári voru strigapokar sem tóku hundrað kíló. Frá mjölpallinum var pokunum keyrt á trillum og fyrst voru þeir látnir standa í nokkurn tíma á meðan mjölið var að kólna. Síðan var pokunum stúað í skemmuna og það þurfti tvo hrausta menn til að stúa hundrað kílóa pokum.
Bogaskemman rúmaði takmarkað af mjöli og því þurfti að flytja mjöl í hús víða í bænum þar sem það var geymt. Slíkir mjölflutningar voru miklir fyrstu árin sem verksmiðjan starfaði.
Á fyrstu vertíðinni var tekið á móti liðlega 4.000 tonnum af síld og vertíðin var stutt. Ýmsir erfiðleikar komu upp við vinnsluna og ég man að vöktum var slitið áður en lokið var við að vinna allt hráefnið sem borist hafði. Eftir vaktaslit var einungis unnið í dagvinnu og vinnslan gekk hægt. Að því kom að hráefnið var orðið mjög slæmt og þá var gripið til þess ráðs að sækja fiskbein og blanda þeim við síldina. Ef ég man rétt voru meðal annars bein frá Eskifirði flutt yfir Oddsskarð í þessum tilgangi.
Ég starfaði í síldarverksmiðjunni yfir sumartímann á árunum 1958 til 1963. Fyrsta árið var ég smokrari eins og fyrr segir en annað árið var ég á kvörninni. Þegar verið var á kvörninni fylgdist maður með mjölinu sem kom úr þurrkaranum en það mátti alls ekki vera of blautt. Seinni hluta sumars á öðru ári mínu í verksmiðjunni vann ég við að skammta formalín í síldina áður en hún fór í sjóðarana. Á þriðja ári fór ég aftur á mjölpallinn en þá hafði mjölhús verið byggt áfast verksmiðjunni og mjölpallurinn var kominn þangað. Á árunum 1961 til 1963 starfaði ég síðan sem mjölstúari en árið 1963 var síðasta árið mitt í verksmiðjunni.
Þegar ég var á kvörninni var hluti af starfinu að safna síldarmerkjum. Mjölið fór yfir segul áður en það fór í kvörnina og merkin festust við segulinn. Ég tók síðan merkin og þau voru send Hafrannsóknastofnun. Ég fékk sérstaklega greitt fyrir hvert merki sem frá mér fór.
Eftir fyrsta árið var farið að nota fimmtíu kíló strigapoka undir mjölið og fljótlega var einnig farið að nota poka úr pappír. Eins var farið að nota færibönd til að flytja mjölpokana eftir að sérstakt mjölhús hafði verið byggt. Það varð ávallt að fylgjast vel með mjölinu því hætta var á að það ofhitnaði og kviknaði í því. Ég man eftir að það kom fyrir að eldur væri laus í mjölhúsinu. Þegar of mikill hiti reyndist í mjölinu þurfti að umstafla því og þá voru sóttir vinnuflokkar upp á Hérað til slíkra starfa. Eins komu Héraðsmenn og störfuðu við mjölústskipanir á fyrstu árunum. Ég minnist þess að Einar í Mýnesi kom og tók þátt í umstöflun á mjöli. Þá var hann í framboði fyrir Þjóðvörn og hélt þrumandi framboðsræðu í mjölhúsinu. Hann stóð upp á pokastæðu og þrumaði yfir mannskapnum.
Í mjölhúsinu unnum við oftast í miklum törnum en lögðum okkur á milli á volgum mjölpokunum. Ávallt var forgangsmál að tryggt væri að pláss væri fyrir pokana sem komu frá mjölpallinum svo mjölið gæti kólnað. Halldór Hinriksson var verkstjóri á okkar vakt og ég minnist þess að hann kom stundum og vakti okkur með þessum orðum: „Jæja vinirnir, er ekki plenty pláss ?“ Þetta þýddi að nú þyrftum við að fara að taka til hendinni.
Við stúararnir vorum oft sendir til að stúa mjöli í húsum úti í bæ sem nýtt voru til mjölgeymslu. Ég man að einu sinni vorum við að stúa á laugardagskvöldi og þá var ball í Egilsbúð. Okkur langaði á ballið og því mættum við í sparifötunum og stúuðum af krafti. Að því loknu fórum við beint á ballið. Ég get ekki ímyndað mér að lyktin af okkur hafi þótt góð.
Hér skal frásögn Víglundar af starfsárum hans í síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar látið lokið. Víglundur kom aftur til starfa hjá síldarvinnslunni árið 1977 og starfaði þá sem kranamaður við fisklandanir í 26 ár. Að því loknu starfaði hann í fiskiðjuverinu við smíðar og viðhald í 12 ár. Víglundur lét af störfum árið 2015 og hafði þá unnið hjá Síldarvinnslunni samtals í 43 ár. Hann segir að sér hafi líkað afar vel að starfa hjá fyrirtækinu og það hafi aldrei hvarflað að sér að færa sig um set þó hann hafi átt þess kost.