Loðnuveiðar suður af landinu hafa gengið vel að undanförnu. Veður hefur verið gott en nú er þó bræla vestast á veiðisvæðinu þar. Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í gær með 1.760 tonn og hófst löndun úr honum strax og lokið var við að landa 1.560 tonnum úr Barða NK. Eftir að bætt var við loðnukvótann hefur nokkrum förmum verið landað til mjöl- og lýsisframleiðslu. Polar Ammassak landaði 2.000 tonnum í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði á sunnudag og í gær kom Beitir NK þangað með 3.125 tonn. Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, segir að vinnslan gangi vel. „Þetta er fersk, stór og falleg loðna og alveg úrvalshráefni. Út úr þessu koma toppafurðir, bæði mjöl og lýsi,“ segir Eggert.
Í Neskaupstað hefur það sem flokkast frá í manneldisvinnslunni farið til mjöl- og lýsisvinnslu og nú upp á síðkastið einnig hluti af nokkrum förmum skipanna. Hafþór Eiríksson,rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, tekur undir með Eggert og dásamar hráefnið. „Þetta er algert gæðaefni sem við erum að fá til mjöl- og lýsisframleiðslu. Hráefnið er alveg spriklandi ferskt,“ segir Hafþór.
Að undanförnu hefur verið unnið dag og nótt við frystingu á Japansloðnu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Vinnslan hefur gengið vel. Nú er þess væntanlega skammt að bíða að hrognavinnsla hefjist en hrognin eru verðmætasta loðnuafurðin.
Eins og flestum er kunnugt er lögð áhersla á að meirihluti viðbótarinnar við loðnukvótann verði veiddur fyrir norðan land. Nú eru nokkur skip fyrir norðan og eru að leita en ekkert hefur frést af veiðum þar.