Það er hörkuveiði hjá Beiti NK á kolmunnamiðunum í færeysku lögsögunni. Ljósm. Sigurjón Mikael Jónuson

Heimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar skipstjóra á Beiti NK til að grennslast fyrir um kolmunnaveiðina í færeysku lögsögunni, en Beitir hélt þangað til veiða á skírdag. „Það verður að segjast að hér er hörkuveiði. Við fengum 630 tonn í gærkvöldi og nú eru allir nemar inni hjá okkur. Sum skip hafa sprengt þannig að nauðsynlegt er að fara varlega. Við erum að veiðum 65 mílur suður af Færeyjum og hér hefur verið gott veður en það var smá kaldi í nótt sem er að lagast núna. Við erum komnir með 2.100 tonn í fimm holum en venjulega er dregið í 8 – 10 tíma. Það eru mörg skip að kolmunnaveiðum á þessum slóðum. Það er allmikill fjöldi rússneskra skipa á gráa svæðinu suður af okkur og þar eru einnig norsk skip. Á sömu slóðum og við eru færeysk skip og ein sjö íslensk. Þá sýnist mér að sjö íslensk skip til viðbótar séu á leiðinni á miðin. Börkur hóf veiðar í gær og Barði mun líklega hefja veiðar í kvöld. Héðan af kolmunnamiðunum er semsagt allt gott að frétta og hér fiskast með ágætum,“ segir Tómas.