Vestmannaey VE hefur fiskað vel að undanförnu. Ljósm. Egill Guðni Guðnason

Síðasta vika var góð hjá Vestmannaey VE. Skipið landaði fullfermi í Eyjum sl. sunnudag og aftur í gær. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri er ánægður með árangurinn. „Þetta var bara þrusuvika hjá okkur og við getum ekki kvartað. Í báðum túrunum tókum við sama veiðirúntinn. Það var Víkin, Höfðinn og Mýragrunn. Aflinn var blandaður. Þorskur hafði vinninginn í fyrri túrnum en ýsan í þeim síðari. Veðrið var ekkert sérstakt og það er varla hægt að tala um sumarveður. Við fengum bæði norðan- og vestanbrælu. Nú styttist í slipp hjá okkur og þá munu menn njóta frísins. Við förum í slipp eftir um það bil hálfan mánuð,“ segir Birgir.

Bergur VE (áður Bergey VE) heldur frá Reykjavík í dag áleiðis til Eyja. Skipið hefur verið í slipp í Reykjavík að undanförnu þar sem meðal annars var skipt um nafn á því. Gert er ráð fyrir að Bergur haldi til veiða síðdegis á morgun.