Vinnsla á loðnuhrognum hófst í Helguvík aðfaranótt sl. mánudags en þá voru hrogn unnin úr afla grænlenska skipsins Polar Amaroq. Vinnslan hefur gengið ágætlega en hún fer fram í samvinnu við fyrirtækið Saltver í Reykjanesbæ.
Vinnsla á hrognum hófst í Neskaupstað í gærkvöldi en þá hófst löndun á 1300 tonnum sem Börkur NK kom með að landi. Þarna er um ræða farminn úr síðustu veiðiferð þessa Barkar en nýr Börkur (áður Malene S) mun leysa hann af hólmi og væntanlega halda til veiða á morgun, miðvikudag. Löndun úr Berki mun ljúka síðdegis en Hákon EA er væntanlegur með 1200 tonn og er gert ráð fyrir að sá afli fari í hrognavinnslu.