Hrognavinnsla hófst í Neskaupstað í dag. Ljósm. Smári Geirsson.Hrognavinnsla hófst í Neskaupstað í dag. Ljósm. Smári Geirsson.Hrognavinnsla hófst í Helguvík um síðustu helgi en hrognin eru þar unnin í samvinnu við Saltver í Reykjanesbæ. Guðjón Þorsteinsson starfar við hrognavinnsluna syðra og lét hann vel af sér þegar haft var samband við hann í gær. „Við byrjuðum á laugardag og unnum hrogn úr farmi sem Vilhelm Þorsteinsson EA kom með. Í beinu framhaldi hefur síðan verið unnið úr tveimur förmum Polar Amaroq,“ sagði Guðjón. „Þetta hefur gengið vel og mannskapur og vélbúnaður er að slípast til. Þá hafa gæði hrognanna  verið á stöðugri uppleið og í fyrrakvöld vorum við að mestu að vinna hrogn sem náð höfðu Japansgæðum en þá er þroskinn yfir 90%. Nú vonumst við bara til að fá sem mest hráefni til að vinna en því miður eru veðurhorfur ekki upp á það besta næstu dagana,“ sagði Guðjón að lokum.
 
Bjarni Ólafsson AK  kom með fullfermi til Neskaupstaðar í morgun og þá hófst hrognavinnslan þar. Mikil áhersla verður lögð á vinnslu hrogna næstu daga en gert er ráð fyrir slíkri vinnslu úr flestum þeim skipum sem nú eru á landleið til Neskaupstaðar. Næsta skip á eftir Bjarna Ólafssyni er Beitir en hann kom til hafnar upp úr hádegi. Á eftir honum koma síðan Börkur og Birtingur.