Hrognavinnsla hófst í Helguvík sl. nótt þegar Vilhelm Þorsteinsson EA kom þangað með 1.500 tonn af loðnu sem fengust í Faxaflóa og út af Snæfellsnesi. Hrognin eru unnin í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ. Loðnan er kúttuð og hreinsuð í Helguvík en fryst í húsnæði Saltvers í Njarðvík.
Að sögn Eggerts Ólafs Einarssonar, verksmiðjustjóra í Helguvík, fer hrognavinnslan rólega af stað að venju en í morgun var allt farið að snúast þokkalega að hans sögn.
Alls eru rúmlega 4.000 tonn af loðnu komin á land í Helguvík á vertíðinni að meðtöldum þeim afla sem nú er verið að landa úr Vilhelm Þorsteinssyni. Grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq landaði þar 900 tonnum í gær.