Loðnuhrogn unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ErnusonLoðnuhrogn unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Ljósm. Hákon Ernuson
Á vegum Síldarvinnslunnar er verið að vinna loðnuhrogn bæði í Helguvík og Neskaupstað. Fyrstu hrognaloðnunni var landað úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í Helguvík í fyrrinótt og í gær og er enn verið að frysta hrogn úr honum. Að sögn Guðjóns Helga Þorsteinssonar gekk vel að vinna hrognin og reyndust gæði þeirra mikil.  „Við vonumst bara eftir því að fá meiri loðnu til hrognavinnslu hið fyrsta, en það er að sjálfsögðu háð því hvernig gengur að veiða,“ sagði Guðjón.
 
Byrjað var að kreista hrogn úr farmi Barkar NK í Neskaupstað sl. nótt. Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar, yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu, hefur vinnslan gengið vel. „Það kemur mikið af hrognum úr farminum og þroskinn er nokkuð góður,“ sagði Jón Gunnar. Gert er ráð fyrir að lokið verði við að vinna hrogn úr farmi Barkar í fyrramálið en skipið kom að landi með 2.000 tonn.