Begur VE og Vestmannaey VE lönduðu í Eyjum sl. mánudag. Ljósm. Arnar Richardsson

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu í Eyjum á mánudag. Bæði skip voru með fullfermi og afli beggja að mestu þorskur og ýsa. Bergur mun halda á ný til veiða um hádegisbil í dag og Vestmannaey í kvöld. Heimasíðan sló á þráðinn til Jóns Valgeirssonar skipstjóra á Bergi og spurði frétta. “Við lönduðum á mánudag og síðan hafa bæði skip legið í höfn. Vertíðin er búin að vera góð en nú er verið að hægja á okkur. Það er talað um að nú verði einungis farnir tveir túrar í viku. Það er eðlilegt að hægt sé á. Hrygningarstopp er að hefjast á okkar hefðbundnu miðum og þá verður nauðsynlegt að fara austar. Í síðasta túr vorum við vestan við Eyjar í ágætis fiskiríi en í túrnum þar á undan var ýsa tekin á Víkinni og þorskur á Selvogsbankanum. Eftir að hrygningarstoppið tekur gildi verður helst farið austur á Síðugrunn. Ég held að menn geti verið mjög sáttir við veiðina að undanförnu og mér heyrist á mönnum að veiði hafi jafnvel verið að færast í aukana síðustu dagana,” segir Jón.