Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í öryggismálum, hefur síðustu daga dvalið í Neskaupstað og fundað með áhöfnum Barða NK, Barkar NK og Beitis NK um öryggismál. Þá fór hann einnig til Seyðisfjarðar og fundaði með áhöfn Gullvers NS. Hefur hann meðal annars fjallað um notkun Öldu öryggisstjórnunarkerfis og atvikaskráningakerfið Atvik sjómenn. Þá hefur hann almennt fjallað um öryggismál með áhöfnum hvers skips fyrir sig. Gísli segir að nú sé áhersla lögð á að nútímavæða öryggisstjórnun til sjós með stafrænum lausnum í samvinnu við útgerðir og sjómenn. “Prófanir á öryggisstjórnunarkerfinu Öldu hófust í febrúar síðastliðnum og Síldarvinnslan hóf að taka þátt í prófununum í marsmánuði. Í sumar munu 24 skip og á fimmta hundrað sjómenn taka þátt í þessum prófunum. Kerfið einfaldar allt utanumhald og er liður í að efla öryggismenningu um borð í skipunum. Þá er atvikaskráningakerfið Atvik sjómenn einnig mikilvægt í þessu sambandi en það heldur utan um ábendingar um hættur og næstumslys þannig að menn fái betri yfirsýn um stöðu öryggismálanna og á hvaða sviðum úrbóta er þörf. Fundirnir með áhöfnum skipanna hafa verið einkar gagnlegir og það er ánægjulegt að upplifa þann áhuga sem er til staðar á öryggismálunum. Ég geri síðan ráð fyrir að koma aftur til Neskaupstaðar í byrjun júnímánaðar og funda þá með áhöfn frystitogarans Blængs,” segir Gísli.