Capture

                Síldarvinnslan hf. áformar að láta gera minningareit á austasta hluta grunns gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974. Reiturinn verður helgaður þeim sem farist hafa í störfum hjá fyrirtækinu. Á grunninum stendur gamall gufuketill og er gert ráð fyrir að hann verði hluti reitsins.

                Efnt verður til samkeppni um útfærslu á minningareitnum þar sem almenningi gefst kostur á að setja fram hugmyndir. Þátttakendur í samkeppninni eru beðnir um að hafa eftirfarandi í huga:

  • Reiturinn á að vera friðsæll og hlýlegur staður
  • Á reitnum á að vera aðstaða til að setjast niður og njóta kyrrðar
  • Koma skal fyrir minningaskjöldum eða skildi um þá sem látist hafa
  • Sögu fyrirtækisins skulu gerð skil á skiltum

Hafa skal í huga við gerð tillagna að reiturinn verði þannig gerður að auðvelt verði að sinna viðhaldi hans.

Heimilt er að skila inn tillögum bæði í máli og myndum. Gert er ráð fyrir að hver tillaga verði kynnt á 1-3 blaðsíðum í stærðinni A4.

Sérstök dómnefnd mun yfirfara þær tillögur sem berast og veitt verða verðlaun að upphæð kr. 600.000 fyrir vinningstillöguna. Síldarvinnslan áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum en jafnframt er gert ráð fyrir að arkitekta- eða verkfræðistofa fullvinni þá tillögu sem fyrir valinu verður. Dómnefnd er heimilt að nýta fleiri en eina tillögu til frekari úrvinnslu og skiptist þá verðlaunaféð á milli þeirra þátttakenda sem tillögurnar eiga.

Tillögum um gerð reitsins skal skila til Síldarvinnslunnar fyrir 1. október nk. Samkeppnin er nafnlaus og skal merkja hverja tillögu með fjögurra stafa auðkennisnúmeri neðst í hægra horni. Lokað umslag merkt auðkennisnúmeri sem inniheldur nafn eða nöfn höfundar eða höfunda  og símanúmer skal fylgja hverri tillögu.

Nánari upplýsingar veitir Jón Már Jónsson yfirmaður landvinnslu s. 892-2509 ()