Trollið tekið á Gullver NS. Ljósm. Þorgeir BaldurssonTrollið tekið á Gullver NS. Ljósm. Þorgeir BaldurssonHeimasíðan hafði samband við ísfisktogarann Gullver NS í morgun og ræddi við Rúnar L.  Gunnarsson skipstjóra og Steinþór Hálfdanarson stýrimann. Fyrst var spurt um fiskirí frá áramótum og sagði Rúnar skipstjóri að það hefði verið þokkalegt. „Við höfum töluvert verið að veiða á Digranesflakinu og Langanesgrunni en þar hefur verið hægt að fá þorsk. Reyndar var ýsa suður frá á okkar hefðbundnu miðum í byrjun mánaðarins en þar er nú lítinn þorsk að hafa. Þorskurinn er þar úttroðinn af loðnu og er að elta hana. Það gekk vel að fiska í janúar en þá náðum við um 500 tonnum í sjö túrum. Veðrið hefur hins vegar sett strik í reikninginn núna í febrúarmánuði,“ sagði Rúnar.
 
Steinþór stýrimaður tekur undir það að veðurlagið í febrúar hafi verið leiðinlegt. „Það hefur verið mikill lægðagangur og sífelldar umhleypingar í febrúar en janúar var hins vegar býsna góður hvað veður varðar hérna fyrir austan. Núna er til dæmis hurðalaust helvítis rok. Við erum austur úr Gerpi og erum að dóla upp undir landið. Ætlunin er að fara norðureftir, það mun hægja fyrr fyrir norðan. Við eigum að landa á fimmtudag og erum komnir með rúmlega 40 tonn,“ sagði Steinþór.