Húsin tvö sem rísa munu í Víkinni

Á dögunum var greint frá því þegar móduleiningar í tvö hús komu til Neskaupstaðar frá Eistlandi. Um er að ræða tvö átta íbúða hús sem reist verða á vegum Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN), Síldarvinnslunnar og byggingarfyrirtækisins Hrafnshóls. Húsin munu rísa í svonefndri Vík eða á Hafnarbraut 38 og 40.

Sl. mánudag var haldinn fundur fyrir áhugasama kaupendur og var hann fjölsóttur. Sýndu fundargestir íbúðunum mikinn áhuga og nú er svo komið að tíu þeirra eru seldar eða fráteknar.

Í húsunum eru íbúðir af tveimur stærðum; annars vegar um 40 fermetrar að stærð og hins vegar um 80 fermetrar að stærð. Í húsinu að Hafnarbraut 38 hefur leigufélagið Brák þegar keypt fjórar íbúðir en þær fjórar sem eftir eru mun byggingafyrirtækið Hrafnshóll bjóða til sölu. Í húsinu að Hafnarbraut 40 eru hins vegar íbúðir sem SÚN og Síldarvinnslan bjóða til sölu. Verð íbúðanna í því húsi er eftirfarandi:

  • Litlar íbúðir, efri hæð 26.400 milljónir
  • Litlar íbúðir, neðri hæð 26.900 milljónir
  • Stórar íbúðir, efri hæð 53.900 milljónir með 30 fermetra bílskúr
  • Stórar íbúðir, neðri hæð 54.500 milljónir með 30 fermetra bílskúr
Húsin að norðanverðu

Næsta sumar verður svölum íbúða hússins að Hafnarbraut 40 lokað með gleri og er verð á lokuninni inni í kaupverðinu. Næsta sumar verða einnig byggðir bílskúrar sem tilheyra stóru íbúðunum að Hafnarbraut 40.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við grunna húsanna hefjist strax eftir áramótin og er vonandi að tíðarfarið verði hagstætt til slíkra verka. Einungis tekur fjórar til sex vikur að fullgera húsin eftir að grunnarnir eru tilbúnir en í einingunum er til dæmis fullbúið eldhús með öllum tækjum og fullbúið baðherbergi.

Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um íbúðir í húsinu að Hafnarbraut 40 skulu hafa samband við Guðmund R. Gíslason, framkvæmdastjóra SÚN. Sími hans er 893-3234.

Húsin tvö munu rísa á Hafnarbraut 38 og 40. Þannig leit það svæði út í lok fjórða áratugar síðustu aldar. Í húsinu fyrir miðri mynd var þá verslun Sæmundar Þorvaldssonar. Ljósm. Björn Björnsson