IMG 9926

Gunnþór Ingvason

        Eins og kunnugt er koma um 100 þúsund tonn af loðnu í hlut íslenskra skipa af þeim 173 þúsund tonna kvóta sem gefinn hefur verið út. Við skulum skoða hvað 100 þúsund tonna loðnukvóti þýðir í tölum fyrir fyrirtæki, starfsfólk og ríkissjóð.

                Áætluð vinnsluverðmæti úr 100 þúsund tonnum af loðnu eru 11,6 milljarðar króna. Það eru 13 fyrirtæki í 10 sveitarfélögum í landinu sem koma að veiðum og vinnslu loðnunnar. Loðnan vegur misjafnlega mikið í heildarveltu fyrirtækjanna og fer það eftir því hve loðnuveiðar og – vinnsla vegur þungt í starfsemi þeirra. Sum fyrirtækin eru blönduð og byggja bæði á bolfiski og uppsjávarfiski en önnur fást einungis við útgerð uppsjávarskipa.

                Áætla má að launagreiðslur í tengslum við veiðar og vinnslu á 100 þúsund tonnum af loðnu nemi um 2,8 milljörðum króna. Það eru 17 skip sem koma að veiðunum, 4 vinnsluskip og 13 skip sem landa aflanum til vinnslu. Á þessum skipum má reikna með að séu 260 sjómenn í það minnsta og hafa þeir lifibrauð sitt af veiðunum. Í landi má reikna með að starfi um 600 manns við loðnuvinnsluna. Hafa tekjur á loðnuvertíð jafnan vegið þungt í árstekjum sjómanna á loðnuskipunum og starfsmanna þeirra fyrirtækja sem annast vinnsluna.

                Ekki hefur verið lagt mat á margfeldisáhrif þeirra fjármuna sem starfsfólk fyrirtækjanna aflar á loðnuvertíð og samfélagsleg áhrif tekna á loðnuvertíð í loðnubæjunum hafa heldur ekki verið metin.

                Áætla má að skatttekjur ríkisins af 100 þúsund tonnum af loðnu nemi tæplega 2,8 milljörðum króna.

 

Capture

                 Hagsmunir sem tengjast loðnuveiðum og – vinnslu eru afar miklir og í ljósi þeirra eru menn almennt sammála um að nýta loðnustofninn með sjálfbærum hætti hér eftir sem hingað til. Aldrei má falla í þá gryfju að láta krónur og aura ákveða nýtingu úr fiskistofnum. Í því sambandi þarf ávallt að byggja á eins góðum rannsóknagögnum og unnt er að nálgast hverju sinni.

                Loðnan drepst eftir hrygningu og því er mikilvægt að góð gögn liggi að hverju sinni á bak við ákvörðun um nýtingu hennar. Það hlýtur að vera mikilvægt að skoða áhrif sístækkandi hvalastofna á loðnustofninn. Og eins þarf að meta áhrif stærðar loðnustofnsins á aðrar tegundir en loðnan er mikilvæg fæða hvala og ýmissa annarra nytjastofna við Ísland.

                Það hlýtur að vera óeðlilegt í ljósi þess sem að framan er sagt að hafrannsóknaskip okkar liggi bundin við bryggju. Það er öllum ljóst sem að loðnuveiðum hafa komið að loðnan getur verið brellin og erfitt að ná utan um stofninn með mælingum. Þannig hafa komið ár þar sem búið er að leita og leita að loðnu án mikils árangurs en síðan hefur hún skyndilega birst í miklu magni einhversstaðar við landið án þess að menn hafi áttað sig á hvernig hún hafi gengið. Það er því grundvallaratriði að leggja áherslu á að rannsaka loðnuna sem best því það eru svo gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir fyrirtækin, loðnubæina, starfsfólk og ríkissjóð. Það hefur ríkt gott samstarf á milli Hafrannsóknastofnunar og loðnuútgerðanna þegar þurft hefur að mæla loðnustofninn. Skoða þyrfti hvort ekki mætti auka það samstarf enn frekar og nýta tækjabúnað fiskiskipanna til upplýsingaöflunar. Slíkt samstarf gæti reyndar verið skynsamlegt við mælingar á fleiri stofnum en loðnustofninum. Tækni nútímans býður upp á fjartengingar og stöðug samskipti þannig að slík söfnun gagna þyrfti ekki að vera erfitt mál og auðvelt ætti að vera að útbúa veiðiskipin öllum þeim búnaði sem nauðsynlegur væri.

                                                                           Gunnþór Ingvason

                                                               framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar