hnu

Hvalir á loðnumiðum. Ljósm: Geir Zoega

                Útgefinn loðnukvóti á yfirstandandi vertíð er einungis 173 þúsund tonn og rétt liðlega 100 þúsund tonn koma í hlut íslenskra veiðiskipa. Þessi niðurstaða olli miklum vonbrigðum en veiðistofninn að afloknum rannsóknum Hafrannsóknastofnunar var metinn 675 þúsund tonn. Samkvæmt gömlu aflareglunni hefði þessi veiðistofn þýtt kvóta upp á ein 250 þúsund tonn en nú er í fyrsta sinn ný aflaregla í gildi og samkvæmt henni er kvótinn um 80 þúsund tonnum minni.

                Þau fáu skip sem þegar hafa hafið loðnuveiðar hafa orðið vör við gríðarlega hvalagengd á miðunum. Þar er fyrst og fremst um hnúfubak að ræða og segja sjómennirnir að stundum þegar litið sé yfir hafflötinn á miðunum megi sjá blástur frá tugum eða hundruðum hvala. Tala sjómennirnir um að fjöldi hvala á loðnumiðum hafi vaxið mikið á seinni árum og ekki er óalgengt að þeir valdi umtalsverðum vandræðum við veiðarnar.

                Því hefur löngum verið haldið fram að helstu tegundir stórhvela við Ísland hegði sér yfirleitt með svipuðum hætti og farfuglarnir. Þeir komi á Íslandsmið á vorin en leiti í hlýrri höf þegar hausta tekur. Nú er flestum ljóst að þessi hegðun hvalanna er ekki algild og fjarri því hvað hnúfubakinn varðar, enda virðist hnúfubakurinn í síauknum mæli vilja njóta veisluborðsins þegar loðnan gengur upp að landinu. Í ljós hefur komið að hnúfubakurinn dvelur oft við Ísland langt fram á vetur og jafnvel er hugsanlegt að hluti stofnsins hér við land haldi alls ekki á suðrænar slóðir. Staðreyndin er sú að veturseta hnúfubaksins hefur lítt verið rannsökuð. En hvað þýðir þetta? Hvað er hnúfubaksstofninn stór og hvernig hefur hann þróast að undanförnu? Hvað má gera ráð fyrir að hver hnúfubakur éti mikla loðnu á meðan hún er aðalfæða hans? Hvað með aðrar tegundir hvala? Koma þær líka hér við sögu?

                Heimasíðan ræddi við Dr. Gísla Víkingsson hvalasérfræðing hjá Hafrannsóknastofnun og bað hann um að veita upplýsingar um hvalafjöldann og loðnuát hvalanna. Gísli sagði að fjöldi dýra í hnúfubaksstofninum hér við land væri álitinn 14-15 þúsund dýr og byggði sú tala á sumartalningum. Nú í september-október hefði í fyrsta sinn farið fram hvalatalning í loðnuleit að haustlagi og var fjöldi hnúfubaka þá metinn um 12 þúsund dýr, sem er mun meira en gert hafði verið ráð fyrir á þessum árstíma. Þá upplýsti Gísli að geysileg fjölgun hefði átt sér stað í hnúfubaksstofninum síðustu áratugi. Byrjað var að telja 1987 og þá var niðurstaðan sú að innan við tvö þúsund hnúfubakar væru við landið. Fjórtán árum síðar töldust dýrin vera 14-15 þúsund en þeim hefur ekki mikið fjölgað eftir það miðað við niðurstöður talninga. Athyglisvert er að á sama tíma og þessi mikli vöxtur átti sér stað í hnúfubaksstofninum fækkaði hrefnu mikið við landið.

                Gísli sagði að samsvarandi vöxtur hefði átt sér stað í hnúfubaksstofnum annars staðar. Mikil fjölgun hefði til dæmis átt sér stað við Noregsstrendur, við austurströnd Bandaríkjanna og eins við Ástralíu. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að snemma á 20. öldinni hafði hnúfubak fækkað mjög í kjölfar gegndarlausrar veiði og var hann til dæmis sjaldgæfur á hafsvæðinu við Ísland fram yfir 1980.

                Ljóst er að fiskur á borð við loðnu er verulegur hluti þeirrar fæðu sem hnúfubakurinn innbyrðir að vetrarlagi og telur Gísli að megi reikna með að hvert dýr éti 600-800 kg af loðnu á dag á meðan hún er aðalfæða þess. Það þýðir að ef gert er ráð fyrir að þau 12 þúsund dýr sem voru hér við landið í upphafi vetrar gæði sér öll á loðnunni þá éti þau um 9000 tonn á dag. Það taki því 12 þúsund hnúfubaka 18-24 daga að éta allt það magn loðnu sem heimilt er að veiða við landið á yfirstandandi loðnuvertíð. Gísli leggur þó áherslu á að taka beri þessar tölur með fyrirvara þar sem ekki var um fullburða hvalatalningu að ræða í haust og ekki hægt að leggja tölulegt mat á óvissu niðurstaðnanna. Auk þess er hugsanlegt að stór hluti hvalanna sem hér voru þegar hausttalningin fór fram hafi ferðast á suðlægari slóðir skömmu síðar. Fjöldi hnúfubaka sem hefur vetursetu hér við land er því óviss og þar með loðnuát þeirra.

                Annar hvalastofn við Ísland sem vaxið hefur mikið er langreyðarstofninn en talið er að yfir sumartímann séu 20-25 þúsund dýr af þeim stofni við landið. Ekki ber mikið á langreyði á loðnumiðunum og er helsta sumarfæða þeirrar tegundar hér við land ljósáta. Gísli upplýsir hins vegar að öll sýni úr maga langreyða hér við land séu sumarsýni vestan og suðvestan við Ísland og því eðlilegt að þar finnist ekki loðna. Undanfarna vetur hafi hvalagengd innfjarða við Noreg aukist gríðarlega og sé hún hin mesta í manna minnum. Þar er mikill fjöldi hnúfubaka og háhyrninga í síld og einnig nokkuð um langreyði. Áður fyrr voru gerðar rannsóknir á fæðu langreyðar í Noregi og sýndu niðurstöður þeirra að auk átunnar gæddi hvalurinn sér í ríkum mæli á loðnu og síld. Eins sýna eldri rannsóknir að loðna er mikilvæg fæða langreyðar við strendur Kanada. Langreyður er stærra dýr en hnúfubakur og benda rannsóknir til að hvert dýr éti 1 – 1,3 tonn af fæðu á dag. Full þörf er á að velta fyrir sér áhrifum þess ef langreyðurin tekur upp á því að hafa vetursetu við Íslandsstrendur eins og þessi hvalategund hefur nú við Noregsstrendur. Þá er það spurningin hve stór hluti stofnsins mynda dvelja yfir veturinn hér við land og þá hvort hvalirnir myndu velja loðnu eða jafnvel síld til neyslu frekar en átuna.

                Það sem hér hefur verið upplýst ætti að fullvissa menn um mikilvægi þess að efla rannsóknir á ört vaxandi stofnum stórhvela við Ísland og þeim áhrifum sem fjölgun hvalanna hefur á lífríkið í hafinu og þá ekki síst á loðnustofninn.  

 ———————————————————————-

Uppfært kl 11:40

Athugasemd frá dr. Gísla Víkingssyni

Í samtali mínu við fréttamann vefsíðu Síldarvinnslunnar varð mér á að fara rangt með tölur úr nýafstaðinni hvalatalningu og endurspeglast það í frétt á vefsíðunni. Rétt er að heildarfjöldi stórhvela á svæðinu var metinn um 12.000 dýr, en þar af var fjöldi hnúfubaka metinn um 7.000 dýr og langreyða um 5.000 dýr. Langreyður er heldur stærri en hnúfubakur og hefur ofangreind villa ekki stórvægileg áhrif á inntak fréttarinnar og hugleiðingar fréttamanns um samspil loðnu og stórhvelanna þótt um tvær tegundir þeirra sé að ræða. Ég biðst velvirðingar á þessum mistökum.

Gísli A. Víkingsson