Nú koma kolmunnaskipin hvert á fætur öðru með afla til löndunar í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 3.000 tonn og landaði meirihluta aflans þar en færði sig síðan yfir á Seyðisfjörð og landaði þar því sem eftir var. Vilhelm Þorsteinsson EA kemur síðan til Seyðisfjarðar í dag með tæplega 2.700 tonn og Beitir NK er væntanlegur til Neskaupstaðar í kvöld með 2.500 tonn. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki, og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. „Við vorum að veiðum á gráa svæðinu og í suðausturhorni færeysku lögsögunnar. Þetta gekk alveg þokkalega en það er ekki jafn mikill kraftur í veiðunum og var í fyrra. Við tókum einungis eitt hol á dag þannig að það var lengi dregið. Holin í túrnum voru átta talsins og yfirleitt fengust á bilinu 350 – 450 tonn í hverju holi. Það sem skipti þó miklu máli var veðrið en það var sannkölluð blíða alla veiðiferðina. Veðrið hefur hins vegar breyst og síðustu tvo daga er búin að vera bölvuð bræla og skipin hafa verið lítið að gera á miðunum. Vonandi lægir í dag. Í fyrra vorum við að kolmunnaveiðum á þessum slóðum nær allan janúar og í loðnuleysisárum hefur kolmunni verið veiddur þarna fram í febrúar. Venjulega hefur verið mest veiði fyrst eftir áramótin en síðan hefur heldur dregið úr. Við gerum ráð fyrir að halda á miðin strax að löndun lokinni í dag,“ segir Hálfdan.