Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á þessu ári, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast á heimasíðunni og hér er eitt þeirra.
Theodór Haraldsson er alinn upp á Selfossi en fluttist til Neskaupstaðar árið 1989. Hann hóf störf hjá Síldarvinnslunni árið 1991 þegar hann réðst sem háseti á skuttogarann Bjart. Theodór fylgdi síðan Sveini Benediktssyni skipstjóra yfir á Barða árið 1993. Theodór segir að um þetta leyti hafi hann verið búinn að taka skýra stefnu í lífinu. „Ég hóf nám í stýrimannaskólanum árið 1996 og lauk því árið 1998. Þarna var ég búinn að ákveða að í framtíðinni yrði ég á sjónum enda var ég búinn að sjá að níu til fimm vinna átti engan veginn við mig. Þegar á árinu 1999 hóf ég að leysa af sem stýrimaður á Barða og varð fyrsti stýrimaður sumarið 2000. Þegar Sveinn Benediktsson lét af störfum árið 2003 fór ég alfarið upp í brú og þar hef ég verið á Síldarvinnsluskipum síðan. Á Barða var ég skipstjóri á móti Bjarna Ólafi Hjálmarssyni á árunum 2015–2016 og síðan færðum við félagarnir okkur yfir á frystitogarann Blæng. Á Blængi var ég fram í október 2021 en þá fór ég sem fyrsti stýrimaður á uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson AK. Áhöfnin á Bjarna fluttist síðan yfir á uppsjávarskipið Barða NK í fyrra og þar er ég nú. Mér hefur alltaf líkað afar vel á sjónum og mér hefur fundist gott að starfa hjá Síldarvinnslunni enda er ég búinn að vera hjá fyrirtækinu í yfir 30 ár. Í sannleika sagt er hver sjóferð spennandi ævintýri og á sjónum eru engir tveir dagar eins.“