Blængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonEkki er óvarlegt að ætla að um og yfir 98% af íslensku sjávarfangi sé selt á alþjóðlegum markaði þar sem hörð samkeppni ríkir. Hæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í veiðum, vinnslu og sölu ræður þeim árangri sem þau ná. Samkeppnishæfni er lykilorðið. Íslensk fyrirtæki hafa staðið sig vel í að bregðast við óskum markaðarins og afhenda rétta vöru á réttum tíma á samkeppnishæfu verði. Enda hafa þau verið frumkvöðlar á ýmsum sviðum. Til þess að halda þessu forskoti verða íslensk fyrirtæki að fjárfesta, bæði til sjós og lands og segja má að fjárfesting sé forsenda framfara, í sjávarútvegi sem annars staðar. 
 
Norðmenn og aðrar þjóðir í norðanverðu Atlantshafi eru helstu samkeppnisaðilar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Eitt form útgerðar eru svo kallaðir frystitogarar, en þar er afli frystur um borð, eins og nafnið gefur til kynna. Þeim hefur fækkað mjög á Íslandi á liðnum árum á sama tíma og Norðmenn hafa verið að fjölga þeim. Mismunandi rekstrarumhverfi í löndunum tveimur hefur áhrif á þetta og þar með á samkeppnishæfnina. Til að varpa ljósi á rekstrarskilyrði tveggja slíkra togara frá Íslandi og Noregi verða hér á eftir bornar saman rekstrartölur eins árs. Tilgangurinn er að varpa ljósi á rekstrarskilyrði, hvort þar væri munur á og í hverju hann felst. Hér er horft til launakostnaðar og opinberra gjalda, en gert var ráð fyrir að annar kostnaður væri sambærilegur fyrir bæði skip.
 
Launatengd gjöld talsvert hærri á Íslandi
 
Það er munur á því hvernig það verðmæti er reiknað sem fer til skipta á milli útgerðar og áhafnar. Á Íslandi fara um 72% af aflaverðmæti til skipta, en í Noregi eru ákveðnir kostnaðarliðir dregnir frá áður en til skipta kemur. Það leiðir til þess að 82% af því aflaverðmæti sem eftir stendur fer til skipta.  
 
Til útreiknings á launum áhafnar er notuð skiptaprósenta og tekur hún mið af fjölda í áhöfn og er skilgreind í kjarasamningum. Til þess að bera saman epli og epli er gert ráð fyrir að 18 séu í áhöfn beggja skipa og miðast skiptaprósentan við það. Skiptaprósentan, það er það hlutfall sem kemur til skipta af verðmæti aflans, er 30,9% á norska skipinu, en 35,3% á því íslenska. Samkvæmt íslenskum kjarasamningum er skiptaprósentan 28,9% en þegar aukahlutir eru teknir inn fer hún í 35,3%. Ekki er greitt orlof á aflahluta í Noregi, heldur einungis orlof af föstu kaupi. Þá eru lífeyrissjóðsgreiðslur lægri í Noregi en á Íslandi. 
 
Samanburður launaliða sem hlutfall af aflaverðmæti
 
Tafla 1 jul 2020
 
Opinber gjöld hærri á Íslandi
 
Eins og glögglega má sjá á töflunni fá íslenskir sjómenn hærra hlutfall af aflaverðmæti í sinn hlut en norskir kollegar þeirra. Þá eru opinberu gjöldin hærri á Íslandi en í Noregi. Af norska skipinu renna 16,5% af aflaverðmæti til hins opinbera. Þar af eru 10,8% tekjuskattsgreiðslur starfsmanna. Restin er af megninu til vörugjald (produktavgift), hráefnisgjald, rannsóknargjald og önnur smærri gjöld. Nefna má hafnargjald sem er um 0,04% af aflaverðmæti og kolefnisgjald sem er 0,6% af aflaverðmæti en hluti þess fæst endurgreiddur ef veitt er utan landhelgi.
 
Á Íslandi fer um 27,1% af aflaverðmæti til hins opinbera. Mestu munar þar um tekjuskattgreiðslur sjómanna sem eru 12,8% þar á eftir eru veiðigjald, launatengd gjöld, kolefnisgjald, hafnargjald og önnur gjöld. 
 
Opinber gjöld sem hlutfall af aflaverðmætiOpinber gjöld sem hlutfall af aflaverðmæti
 
Er raunhæft að fjárfesta í nýjum frystitogara á Íslandi
 
 Kökuritið sýnir okkur hvernig aflaverðmæti árið 2018 skiptust annars vegar á íslenska og norska togaranum. Á því sést að framlegð útgerðarinnar á Íslandi er lægri en í Noregi. Það er ljóst að nýr fullbúinn frystitogari kostar um 7 milljarða kr. Til að standa undir slíkri fjárfestingu þarf reksturinn að geta staðið undir þeim mikla fjármagnskostnað sem fylgir nýsmíði togara. Þessi munur á launahlutfalli ásamt gríðarlegum mun á opinberum gjöldum leiðir til minni framlegðar frystitogaraútgerðar á Íslandi mv. Noreg. Leiða má líkur að því að þarna liggi ástæðan fyrir þessari mismunandi þróun sem er að eiga sér stað á milli landana þegar kemur að fjárfestingum í frystitogaraútgerð