Útskipun á frystri loðnu.  Ljósm. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir

Um þessar mundir kemur hvert skipið á fætur öðru til Neskaupstaðar og lestar þar frysta loðnu.  Magnið sem skipin taka er misjafnlega mikið og má nefna að nýverið lestaði skip 300 tonn sem fóru til Pétursborgar og annað 250 tonn til Litháen.  Nú er hins vegar í höfninni skip sem mun lesta 2.500 tonn og á miðvikudag kemur annað sem mun lesta 5.000 tonn.  Báðir þessir stóru farmar munu fara til hafna við Svartahafið.

Að sögn Heimis Ásgeirssonar yfirverkstjóra fylgja þessum útskipunum verulegar annir en auk þeirra er unnið við að setja Japansloðnu í gáma.

Frosinn fiskur fer bæði út og inn úr frystigeymslunum því í fyrramálið er Hákon EA væntanlegur með 750 tonn af sjófrystum kolmunna.